Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Telja að kjarnorkuvopnum fari að fjölga á ný

epa03400876 A handout picture released by the Pakistani military Inter Services Public Relations (ISPR) on 17 September 2012 shows Pakistan's Hatf-VII (Babur) cruise missile, capable of carrying nuclear warheads, taking off during a test-firing from an undisclosed location. The domestically developed Babur, a low-flying, terrain-hugging and highly manoeuvrable missile, has near-stealth capabilities and can strike targets up to 700 kilometres away.  EPA/INTER SERVICES PUBLIC RELATIONS EDITORIAL USE ONLY HANDOUT EDITORIAL USE ONLY
Pakistanar skjóta á loft Hatf-VII (Babur)-stýriflaug í tilraunaskyni, en slíkar flaugar geta borið kjarnaodda. Mynd: epa
Allt bendir til þess að kjarnorkuvopnum fari aftur fjölgandi næsta áratuginn, eftir að hafa fækkað jafnt og þétt síðustu 35 árin. Þetta kemur fram í nýrri ársskýrslu Alþjóða friðarrannsóknarsetursins í Stokkhólmi, SIPRI, þar sem Úkraínustríðið er nefnt sem meginástæða þessa viðsnúnings.

Sérfræðingar SIPRI áætla að  kjarnorkuveldin níu, Bandaríkin, Rússland, Kína, Bretland, Frakkland, Indland, Pakistan, Ísrael og Norður-Kórea, hafi samtals búið yfir 12.705 kjarnavopnum í byrjun þessa árs, 375 færri en í ársbyrjun 2021. Það er innan við fimmtungur þeirra ríflega 70.000 kjarnorkuvopna sem talin eru hafa verið í vopnabúrum stórveldanna þegar mest var, árið 1986.

Munar þar mestu um mikla afvopnun Bandaríkjanna og Rússlands frá lokum kalda stríðsins. Nú virðist hins vegar sem afvopnunarskeiðiið sé að baki og AFP hefur eftir Matt Korda, einum höfunda skýrslunnar, að líklega sé farið að styttast mjög í það að kjarnavopnum fari að fjölga á ný, í fyrsta skipti frá lokum kalda stríðsins. „Það er virkilega svolítið hættuleg staða,“ segir Korda.

Úkraínustríðið og yfirlýsingar Pútíns kynda undir kjarnavopnakapphlaupi

Í skýrslu SIPRI segir að búast megi við því að kjarnorkuvopnabúr heimsins fari stækkandi næsta áratuginn. Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur ítrekað fært kjarnavopn í tal og ýjað að mögulegri beitingu þeirra eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu.

Þá hafa nokkur kjarnorkuríki, þar á meðal Kína og Bretland, verið að endurnýja og jafnvel stækka kjarnorkuvopn sín, fyrir mis-opnum tjöldum, segir í skýrslunni, og áður hefur komið fram að Bandaríkin hyggja á allsherjar yfirhalningu á sínum kjarnavopnakosti.

„Það á eftir að verða mjög erfitt að ná árangri við afvopnun á næstu árum vegna þessa stríðs [í Úkraínu], og vegna þess hvernig Pútín talar um kjarnavopn sín,“ segir Korda. Þessar uggvekjandi yfirlýsingar Rússlandsforseta reki „mörg önnur kjarnorkuríki til að endurskoða eigin stefnu“ varðandi kjarnavopn.

Bandaríkin og Rússland eiga 90 prósent kjarnavopna

Hina miklu fækkun kjarnavopna á síðustu áratugum má einkum rekja til þess að Bandaríkjamenn og Rússar hafa verið að eyða úreltum kjarnaoddum sem búið var að leggja á hilluna löngu fyrr. Fjöldi virkra og nothæfra kjarnavopna hafi hins vegar haldist nokkuð stöðugur.

Sem fyrr er mikill meirihluti þeirra, um 90 prósent, í vopnabúrum þessara erkifjenda kalda stríðsins. Rússar áttu 5.977 kjarnaodda í byrjun þessa árs samkvæmt heimildum SIPRI, 280 færri en í fyrra. Þar af eru um 1.600 taldir tilbúnir til notkunar en afgangurinn er í geymslu eða á leið í úreldingu.

Bandaríkjamenn fækkuðu sínum kjarnaoddum um 120 og eru taldir búa yfir 5.428 kjarnaoddum í það heila. Þeir eru hins vegar með fleiri kjarnaodda tilbúna til notkunar en Rússar, eða um 1.750 talsins. Kínverjar eru taldir eiga 350 kjarnaodda í sínu vopnabúri, Frakkar 290, Bretar 225, Pakistanar 165, Indverjar 160 og Ísrael 90. Ísrael er eina ríkið sem hefur ekki viðurkennt opinberlega að það búi yfir kjarnavopnum.

Þá er Norður Kórea í fyrsta skipti með á lista SIPRI yfir staðfest kjarnorkuveldi. Sérfræðingar stofnunarinnar áætla að Norður-Kóreumenn búi yfir 20 tilbúnum kjarnaoddum og eigi nóg hráefni til að smíða eina 50 til viðbótar.

Ekki hægt að vinna kjarnorkustríð - en samt ...

Fulltrúar allra fimm fastaríkja og kjarnorkuvelda í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna; Bandaríkjanna, Rússlands, Kína, Frakklands og Bretlands, sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu í ársbyrjun 2022, um að „sigur [geti] aldrei unnist í kjarnorkustríði“ og að „slíka styrjöld [megi] aldrei heyja.“

Samt sem áður, segir í skýrslu SIPRI, halda öll þessi ríki áfram að „stækka eða endurnýja kjarnorkuvopnabúr sín og virðast vera að auka vægi kjarnorkuvopna í hernaðaráætlunum sínum.“

Sem dæmi um þetta benda þeir á að Kínverjar vinni að stórfelldri aukningu á kjarnavopnum og tengdum mannvirkjum. Af gervihnattamyndum megi ráða að þeir séu að byggja yfir 300 ný neðanjarðar-eldflaugabyrgi. Bandaríska varnarmálaráðuneytið áætlar að Kínverjar gætu verið búnir að koma sér upp allt að 700 kjarnaoddum árið 2027.