Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Segir lykkjuátakið hafa verið vel heppnað

13.06.2022 - 10:51
Mynd með færslu
Í Sisimiut á Grænlandi.  Mynd: Chmee2/Valtameri - Wikimedia Commons
Síðasti og eini núlifandi Grænlandsráðherra Danmerkur, Tom Høyem, telur að átaksverkefnið að setja lykkjuna í ungar grænlenskar stúlkur hafi verið mikilvægt og vel heppnað. Hann segir ekki rétt að getnaðarvarnarlykkjum hafi verið komið fyrir í stúlkum án vitneskju þeirra.

Hafa ekki slæma samvisku

Høyem hélt ræðu á stórri heilbrigðisráðstefnu í Nuuk 1985, þegar hann var Grænlandsmálaráðherra. Þar lýsti hann góðum árangri af svokölluðu lykkjuátaki á 7. og 8. áratugnum á Grænlandi. Á stuttum tíma hefði dregið úr fæðingum um helming og það mætti þakka öflugu heilbrigðiskerfi og þjóð sem vildi draga úr fæðingartíðni.

Málið kom nýlega upp á yfirborðið og þá skapaðist mikil umræða um það óréttlæti sem mörgum þykir lykkjuuppsetningin vera. Høyem segir að ef stjórnvöld hefðu slæma samvisku vegna þessa hefðu þau aldrei talað opinberlega um málið eins og þau gerðu þegar átakið stóð yfir.

Segir stúlkurnar hafa gefið samþykki

Høyem segist vera knúinn til að leiðrétta þann misskilning að stúlkurnar hefðu ekki vitað af uppsetningu lykkjunnar og að þær hefðu verið því mótfallnar. Opinskátt hafi verið talað um átakið og vel vitað um hvað það snerist. Hann segir að augljóslega sé það glæpsamlegt að setja getnaðarvarnarlykkju í 13 og 14 ára stúlkur gegn vilja þeirra og ganga beri úr skugga um hvort sú hafi verið raunin.

Hann viðurkennir að ef til vill hafi óttablandin virðing fyrir yfirvöldum og tungumálaerfiðleikar, þar sem allir læknar voru danskir, valdið því að stúlkurnar og foreldrar þeirra mótmæltu ekki uppsetningunni. Átakið hafi þó tvímælalaust gert meira gagn en ógagn enda hafi ástandið á Grænlandi verið slæmt og fóstureyðingar og andvana fæðingar verið tíðar.

Mynd með færslu
 Mynd: finans.dk - RÚV
Tom Høeym var Grænlandsráðherra á árunum1982-1987