Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Segir Breta setja slæmt fordæmi í flóttamannamálum

Mynd með færslu
Filippo Grandi, framkvæmdastjóri Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.  Mynd: Wikicommons
Yfirmaður flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna gagnrýndi í dag áform Bretlandsstjórnar um að senda fólk sem hefur sótt um vernd þar í landi til Rúanda. Til stendur að senda 31 hælisleitanda með flugi til Afríkulandsins á morgun.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, og Priti Patel innanríkisráðherra hafa sætt gagnrýni vegna stefnunnar. Þau hafa þó ekki viljað draga í land og segja nauðsynlegt að grípa til aðgerða til þess að stemma stigu við hættulegum siglingum yfir Ermarsund. Með því að senda fólk til Rúanda vonast Bretlandsstjórn til þess að fæla fólk frá að koma til Bretlands með ólöglegum hætti.

Um 10.000 hafa siglt yfir sundið í ár, mun fleiri en á undanförnum árum, og fjöldi farist á leiðinni.

Fillippo Grandi, framkvæmdastjóri flóttamannastofnunarinnar, sagði við fjölmiðla að áformin væru röng og þótt markmiðið væri að koma í veg fyrir hættulegar siglingar væru betri leiðir til þess. Bretar væru að varpa ábyrgðinni á herðar annarra. 

Sagði Grandi að Rúanda hefði engu að síður staðið sig vel í móttöku flóttafólks. Til dæmis hefði ríkið tekið við tugum þúsunda frá Austur-Kongó og Búrúndí. 

Að mati Grandi setja Bretar slæmt fordæmi með flutningunum. Fjölmörg Afríkuríki, sem eru fátækari en Bretland en hýsa samt sem áður mikinn fjölda flóttamanna, gætu jafnvel ákveðið að loka landamærum sínum fyrst Bretar, mun ríkari þjóð, hafi ákveðið að gera það.

Þórgnýr Einar Albertsson