Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Airbusvél í eldsneytisvandræðum á leið til Keflavíkur

útistæði, útilandgangur á keflavíkurflugvelli, landgangur,
 Mynd: RÚV/Bragi
Rauðu neyðarstigi var lýst yfir á Keflavíkurflugvelli á öðrum tímanum í nótt þegar farþegaþota af gerðinni Airbus 320 lenti í vandræðum á leið til Keflavíkur. Vandræðin eru sögð hafa verið vegna eldsneytis, en ekki hafa fengist nánari upplýsingar um það, í hverju þau fólust eða hversu alvarleg þau voru. 105 manns voru um borð í vélinni, sem lenti heilu og höldnu á Keflavíkurflugvelli klukkan 1.40.

Samkvæmt heimildum fréttastofu var vélin að koma frá Malaga á Spáni á vegum flugfélagsins Play Air. Var henni ekki ekið beint að flugstöðinni eftir lendingu, heldur lagt á svokölluðu austurhlaði, nærri athafnasvæði flugskólans Keilis. 

Lýst var yfir rauðu neyðarstigi á vellinum þegar fregnir bárust af vandræðum vélarinnar sem þýðir að allir viðbragðsaðilar eru settir á hæsta viðbúnaðarstig. Neyðarstigi var aflétt laust fyrir klukkan tvö í nótt. 

Fréttin hefur verið uppfærð í takt við nýjustu, fáanlegar upplýsingar hverju sinni, síðast klukkan 02.08.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV