Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Skæð hitabylgja og ógnarmiklir skógareldar

FILE - Smoke from the Calf Canyon/Hermit Peak Fire drifts over Las Vegas, N.M., on May 7, 2022. New Mexico residents are suing the U.S. Forest Service for information on a massive wildfire that's been burning in the state since late April. The agency has been criticized for its role in causing two wildfires that merged to become the largest blaze in New Mexico history. (Robert Browman/The Albuquerque Journal via AP, File)
Mestu skógareldar í sögu Nýja Mexíkó kviknuðu í apríl og loga enn Mynd: AP
Hitabylgja geisar víða í sunnanverðum Bandaríkjunum og í Nýja Mexíkó loga mestu skógareldar sem sögur fara af í ríkinu. Kaliforníubúar fá í dag eilitla hvíld frá hitabylgju sem þar hefur geisað inn til landsins um hríð, en spár gera ráð fyrir að hitinn nái fyrri hæðum á þriðjudag.

Miklir hitar inn til landsins í Suður-Kaliforníu

Hiti fór víða yfir 32 gráður í dölum og eyðimerkursvæðum Suður-Kaliforníu í gær og yfir 39 gráður á nokkrum stöðum, samkvæmt frétt Los Angeles Times. Það er rúmlega fimm gráðum yfir venjulegum hitatölum um þetta leyti árs á þessum sömu stöðum.

Mestur varð hitinn í Dauðadalnum, þar sem hann mældist upp undir 50 gráður þegar verst lét, samkvæmt frétt NRK. Heldur svalara verður í dag og á morgun en á þriðjudag er varað við jafnvel enn meiri hitum en síðustu daga og aukinni hættu á skógar- og gróðureldum inn til landsins.  

Hitamet jöfnuð í Denver, Las Vegas og Phoenix

Annars staðar í Suðvesturríkjum Bandaríkjanna hefur hitinn líka verið mikill og sums staðar nálgast eða jafnvel jafnað gildandi hitamet. Þetta á við um fjallaborgina Denver í Colorado þar sem hitinn mældist 38 stig, Las Vegas í Nevada þar sem hitinn fór í 43 stig og í Phoenix í Arisóna mældist 46 stig, rétt eins og í Palm Springs í Flórída á suðausturhorninu.

Biden heitir auknum stuðningi vegna feikilegra skógarelda

Loks má geta þess að Joe Biden hét í gærkvöld auknum stuðningi alríkisins við Nýja Mexíkó, þar sem mestu skógareldar í sögu ríkisins hafa geisað síðan í apríl, samkvæmt frétt norsku fréttastofunnar NTB.

Þeir eldar kviknuðu út frá eldum sem slökkvilið kveikti vísvitandi með það fyrir augum að fyrirbyggja skógarelda. Hundruð heimila hafa brunnið til ösku og þúsundir neyðst til að flýja heimili sína vegna eldanna, sem þegar hafa sviðið um 1.300 ferkílómetra gróðurlendis.