Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Hvetja stjórnvöld til þess að innleiða kvennasáttmálann

Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Skortur á fjármagni kemur í veg fyrir að stjórnvöld geti sinnt skyldum sínum í jafnréttismálum og lýst er yfir áhyggjum af réttarkerfinu á Íslandi vegna vægra refsinga og fyrningarfrests á kynferðisbrotum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skuggaskýrslu vegna framkvæmda Íslands á kvennasáttmálanum.

Kvenréttindafélag Íslands ásamt Mannréttindastofu Íslands, Öfgum, UN Women á Íslandi og Öryrkjabandalagi Íslands hafa skilað inn sameiginlegri skuggaskýrslu til nefndar sem starfar á grundvelli samnings Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum, eða Kvennasáttmálans eins og hann er kallaður.

Ísland undirritaði sáttmálann árið 1980 en hann hefur þó ekki enn verið innleiddur í íslensk lög. Nefndin undirbýr nú fund þar sem fulltrúar íslenska ríkisins munu sitja fyrir svörum um framkvæmd hans. Rut Einarsdóttir er framkvæmdastýra Kvenréttindafélags Íslands.

„Íslenska ríkið skilaði fyrst inn skýrslu núna síðasta haust og svo eru félagasamtök beðin um að skila inn skuggaskýrslu, þannig að það komi þá frá samtökum í landinu sem að geta þá svarað fyrir hvernig þau sjá þetta frá þeim bæjardyrum,“ segir Rut Einarsdóttir, framkvæmdastýra Kvenréttindafélags Íslands.

„Hún verður svo tekin fyrir á fundi þessarar nefndar í Genf í febrúar 2023. Þannig að íslenska ríkið hefur ennþá tækifæri til þess að takast á við þau ummæli sem við leggjum fram í okkar skýrslu.“

Samtökin hvetja stjórnvöld til þess að innleiða Kvennasáttmálann í íslensk lög.

„Nú erum við með mjög sterk jafnréttislög á Íslandi en það vantar algjörlega að þetta sé innleitt inn í alla lagagerð, að það séu ekki bara jafnréttislögin sjálf ein og sér sem að standi á bak við það heldur að það sé Kvennasáttmálinn, mismunun gegn konum komi bara alveg í gegnum íslensk lög í heild sinni.“

rebekkali's picture
Rebekka Líf Ingadóttir
Fréttastofa RÚV