Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Ferðamenn töldu sig geta synt í land ef aldan næði þeim

Mynd: Kristín Sigurðardóttir / RÚV
Sex erlendir ferðamenn voru hætt komnir i Reynisfjöru í dag, á sama stað og kanadískur ferðamaður drukknaði í gær. Fréttastofa ræddi við nokkrar erlenda ferðamenn sem stóðu í flæðarmálinu og létu jafnvel sjóinn flæða yfir fæturna á sér. Þeir töldu sig ekki hafa sett sig í hættu en stóðu þó á mjög svipuðum stað og banaslysið varð á föstudag. Einn taldi að hann gæti synt ef aldan næði honum. Aðrir sögðust njóta þess að taka áhættu.

Leiðsögumaður segir fólkið ekki hafa gert sér grein fyrir því í hve mikilli hættu það var. Ferðamenn sem stóðu í flæðarmálinu töldu sig geta synt í land ef aldan næði þeim.

Það var í gær sem að kanadísk hjón stóðu í flæðarmáli Reynisfjöru þegar að alda hrifsaði þau með sér. Ekki var hægt að ná manninum strax á land. Það dýpkar mjög bratt skammt frá fjörunni og verður dýpið þar jafnvel átta metrar. Það er ekki bara öldurótið sem gerir fólki erfitt fyrir að fóta sig í sjónum því mikið af sandi og grjóti fer þar á hreyfingu. Fyrir snarræði tókst leiðsögumanni að hrifsa eiginkonu mannsins á land. Þegar hún náðist á land voru vasarnir á úlpunni hennar fullir af sandi og grjóti. Maðurinn, sem var á áttræðisaldri og á svæðinu í skipulagðri ferð með stærri hóp, lést.

Í dag var svo þýsk fjölskylda hætt komin á sama stað í fjörunni. Hrafnhildur Faulk, leiðsögumaður, varð vitni að atvikinu.

„Það kemur skyndilega stór alda og hún fer einhvern veginn á hliðina á klettinum þannig að það kemur brim,“ segir Hrafnhildur.

Hún bætir við að sex manns hafi þá dottið en náð að krafla sig af stað, nema einn eldri maður sem átti í erfiðleikum með að koma sér úr flæðarmálinu.

Tók sér tíma til að leita að gleraugunum í ölduganginum

„Ég var alltaf að bíða eftir að hann stæði upp og hlypi en það gerðist ekkert,“ segir Hrafnhildur, en maðurinn var þá að leita að gleraugunum sínum í sandinum.

Var honum mjög brugðið?

„Mér fannst honum ótrúlega lítið brugðið miðað við, ég held að mér hafi verið meira brugðið

Þú hefur farið þarna með hópa í Reynisfjöru. Það eru skilti og alls konar, en gerir  fólk sér grein fyrir hættunni?

„Nei, bara engan veginn. Mér finnst fólk almennt gera sér grein fyrir henni, eða þegar maður er búinn að útskýra hana fyrir hópum og svo koma þau í fjöruna og sjá öldurnar.“

Fólk með pínulítil börn hlaupandi um í flæðarmálinu

Hún segir að þá komi fólk oft og segist skilja hvað hún hafi verið að meina. En það sé alltof algengt að sjá fólk, jafnvel með pínulítil börn sem séu hlaupandi um í flæðarmálinu.

„Þá náttúrulega hleypur maður og skiptir sér af. En maður getur bara því miður ekkert stoppað þetta.“

Hefurðu oft orðið vitni að því að fólk sé að fara sér að voða þarna?

„Ég hef oft orðið vitni að því að fólk sé að fara alltof nálægt, en sem betur fer er þetta í fyrsta skipti sem ég sé svona alvarlegt tilvik. Þetta leit ekki vel út.“

Telja sér borgið með sundhæfileikum og áhættuhegðun

Fréttastofa ræddi við nokkrar erlenda ferðamenn sem stóðu í flæðarmálinu og létu jafnvel sjóinn flæða yfir fæturna á sér. Þeir töldu sig ekki hafa sett sig í hættu en stóðu þó á mjög svipuðum stað og banaslysið varð á föstudag. Einn taldi að hann gæti synt ef aldan næði honum. Aðrir sögðust njóta þess að taka áhættu.