Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Niceair aflýsir öllu flugi til Bretlands í júní

10.06.2022 - 13:18
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Í ljósi þeirra vandræða sem upp hafa komið varðandi flug Niceair milli Akureyrar og Bretlands hefur félagið ákveðið að aflýsa öllu fyrirhuguðu flugi til Bretlands í júní. Flug til Bretlands verða ekki bókanleg fyrr en varanleg lausn er fundin.

Öllum farþegum verði boðin endurgreiðsla og þeim sem þess óski verði hjálpað að komast á áfangastað erlendis eða heim aftur.

„Eftir því sem næst verður komist felst vandinn m.a. í því að Ísland er með tvíhliða samning við Bretland um flugþjónustu og Bretland er með sams konar samning við Evrópusambandið. Þessir tveir samningar skarast í Bretlandi. Vandamálið byrjar þegar flytja á farþega frá Bretlandi til Íslands af flugrekanda með heimilisfesti í Evrópusambandinu,“ segir í fréttatilkynningu frá Niceair, en flugfélagið Highfly Malta sinnir Bretlandsfluginu í umboði Niceair.

Í tilkynningu Niceair segir að ahyggjuefni Breta sé neytendavernd, en eftir Brexit viðurkenni Bretar ekki lengur sjálfkrafa víðtæk neytendavarnarlög sem fylgi evrópskum flugrekendaskírteinum samkvæmt reglugerð þar um.

„Bresk yfirvöld vildu einnig meina að okkar ágætu samstarfsaðilar hefðu ekki heimildir til flugs til og frá Bretlandi, en þeir eru samt sem áður á lista yfir viðurkennda flugrekendur af breskum stjórnvöldum. Að auki var gerð krafa um að Niceair, íslenskt fyrirtæki, hefði breskt ferðaskrifstofuleyfi til sölu pakkaferða (flug, gisting, bílaleigubílar), sem er ekki starfsemi sem Niceair er í. Hvergi var minnst á þessi atriði í 3ja mánaða umsóknarferli um lendingarheimildir og stæði á flugvöllum í Bretlandi.“

Niceair segir að margar tillögur að lausnum hafi verið lagðar á borð breskra yfirvalda. Þar hafi félagið notið liðsinnis Samgöngustofu, utanríkisráðuneytisins og breska sendiráðsins á Íslandi, en allt komið fyrir ekki. „Framundan er helgi í Bretlandi og það að heyra á Bretum að ólíklegt sé að sú lausn sem er á borðinu verði samþykkt í tæka tíð vegna skorts á tíma og mannafla,“ segir í tilkynningunni sem Niceair sendi frá sér í hádeginu. Viðræður við bresk stjórnvöld muni halda áfram í því skyni að ná varanlegri lausn.