Við rannsóknina hafði hópurinn ekki erindi sem erfiði vegna öflunar upplýsinga og gagna frá fjölda sveitarfélaga sem og Embættis landlæknis.
Ásgeir Eiríksson bæjarstjóri Sveitarfélagsins Voga, segir að ekkert erindi frá starfshópnum hafi fundist hjá sveitarfélaginu. Frá því var greint í gær að Vogar væru eitt þeirra sveitarfélaga sem ekki hefðu skilað umsögn til starfshópsins.
Pottur brotinn við öflun upplýsinga
Í samtali við fréttastofu segir Ásgeir að pottur hljóti að hafa verið brotinn við upplýsingaöflun starfshópsins. Það hafi ekki verið ætlun sveitarfélagsins að svara ekki fyrirspurnum, enda málefnið aðkallandi og mikilvægt að því sé vel sinnt.
Vogar hafi ekki rekið vistheimili og því ekki um að ræða að gögn væru í fórum sveitarfélagsins. Vogar sé auk þess með samstarfssamning um starfrækslu félagsþjónustu við Suðurnesjabæ, sem sé sameiginleg fyrir Suðurnesjabæ og Sveitarfélagið Voga.
Í tilfelli Voga hafi erindið ekki verið sent á netfang sveitarfélagsins, heldur netfang félagsmálastjóra bæjarins í nóvember 2021. Þetta segir Ásgeir afleitt, því vegna þessa hafi ekki hafi verið mögulegt að tryggja formlegt ferli málsins innan sveitarfélagsins og viðeigandi afgreiðslu.
Sjá einnig: Ólíkar skýringar á hvers vegna ekki var svarað
Erindi sent til Sandgerðisbæjar
Ásgeir segir að þegar málið hafi verið skoðað eftir að fréttaflutningur af niðurstöðum skýrslunnar hófst og greint var frá því að fjöldi sveitarfélaga hefði ekki svarað starfshópnum, kom í ljós að ráðuneytið sendi erindið á netfang Sandgerðisbæjar.
Hann segir að þetta skjóti skökku við, þar sem sveitarfélögin Sandgerði og Garður hafi sameinast árið 2018 og Suðurnesjabær orðið til sem sveitarfélag.
Hann segir því rangt sem komi fram í skýrslunni, að óskað hafi verið eftir umsögn frá öllum sveitarfélögum. Réttara sé að kallað hafi verið eftir umsögn frá öllum Félagsþjónustum sveitarfélaga landsins.
Embætti landlæknis harmar mistök
Greint var frá því í gær að Landlæknisembættið harmi að hafa ekki svarað erindi frá starfshópnum, um mannleg mistök hafi verið að ræða. Embættið gegnir eftirlitshlutverki með aðbúnaði og meðferð fatlaðs fólks með þroskahömlun og fólks með geðrænan vanda á heilbrigðisstofnunum. Í svari til fréttastofu segir að erindið hafi borist í nóvember á síðasta ári en farið fram hjá starfsfólki og því ekki verið tekið til meðferðar.
Nærri helmingur sveitarfélaga svaraði heldur ekki erindi vistheimilishópsins. 31 sveitarfélag af 69 sendi hópnum því engin svör þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir hópsins. Meðal þeirra sem ekki brugðust við erindinu voru nokkur af fjölmennustu sveitarfélögum landsins. Ástæður voru ólíkar, borið var við tímaskorti á Akureyri en í Reykjanesbæ var ástæðan sögð mismunandi hugtakaskilningur.
Skýrslu vistheimilahópsins má nálgast á vef Stjórnarráðsins.