Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Útlendingafrumvarpinu frestað til haustsins

09.06.2022 - 13:47
Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur ákveðið að fresta frumvarpi sínu um útlendinga til haustsins. Hann segist gera það til að liðka fyrir samningum um þinglok. Ljóst sé að stjórnarandstaðan hafi ekki fallist á þær tillögur sem hann hafi komið með sem gagntillögur til þeirra og því stefni hann að því að leggja frumvarpið fram að nýju í haust.

Dómsmálaráðherra lagði frumvarpi fram í apríl og mælti fyrir því um miðjan maí og hefur það mætti mikilli andstöðu innan þings og utan og þá afgreiddi þingflokkur Vinstri grænna frumvarpið með fyrirvörum. 

Þingflokkar Samfylkingar, Flokks fólksins og Viðreisnar lögðu fram tillögur að breytingum við frumvarpið fyrr í vikunni, ráðherra kom með tillögur á móti sem þingflokkarnir sættu sig ekki við. Þingflokksformenn reyndu fyrir hádegi að ná samkomulagi en það náðist ekki. Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, sagðist fyrir hádegi ósáttur með að ríkisstjórnin hefði ekki fengist til að ræða breytingatillögur stjórnarandstöðunnar. „Nú liggur fyrir að ríkisstjórnin ætlar ekki að ljá máls á þessum breytingum, slær á útrétta sáttarhönd og það á því ekki að bæta stöðu og réttarvernd fólks á flótta,“ sagði Sigmar á Alþingi fyrr í dag.