Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Setti tóninn fyrir því sem koma skal

Mynd: RÚV / RÚV

Setti tóninn fyrir því sem koma skal

09.06.2022 - 09:30

Höfundar

„Kom dópisti út úr móðurkvið. Læt ekki annað fólk móta mig“. Svona hljóðar opnunarlagið á nýjustu plötu Birnis rappara. Á plötunni afhjúpar tónlistarmaðurinn sig á svo einlægan hátt að hann óttast að hafa ekkert meira að segja á þeirri næstu.

Tónlistarmaðurinn og rapparinn Birnir gaf út plötuna Bushido í október þar sem hann opnar sig á einlægan hátt. Um helgina hélt hann loks útgáfutónleika og fékk til sín góða gesti á borð við ClubDub, GDRN og Hákon.  

„Mér fannst þetta vera við hæfi“

„Ég er að tækla mikið af andlegum málefnum á plötunni,“ segir Birnir í samtali við Sigga Gunnars í Popplandi á Rás 2. „Og Óviti er eins og fæðingarlag, byrjunin á einhverju.“ Óviti er fyrsta lag plötunnar og þar opnar Birnir sig upp á gátt með textanum: 

Kom dópisti út úr móðurkvið 
Læt ekki annað fólk móta mig.  

„Mér fannst það vera við hæfi, setti tóninn fyrir það sem koma skal,“ segir Birnir en þurfti að fá leyfi hjá mömmu sinni fyrir orðunum. „Þessi lína er ótrúlega falleg en ógeðsleg á sama tíma. Ég er alltaf hrifinn af svoleiðis rugli.“ 

Má ekki vera þægilegt að gefa út tónlist  

Það getur þó verið kvíðavaldandi að afhjúpa sig svo opinberlega í gegnum tónlistina. „Þetta er mjög fyndið því það er svo geggjað að gera músík, ég elska það,“ segir Birnir. „En svo er mjög stressandi að gefa út músík og sérstaklega með eitthvað svona, svona lög.“ 

„En fyrir mér er þetta einhvern veginn eina leiðin. Að tala um það sem er satt og rétt og eitthvað er erfitt og opna á hluti sem þú vilt ekki endilega opna á,“ segir Birnir. „Þetta má ekki vera þægilegt. Þú getur ekki bara verið að tala um eitthvað sem þú skilur algjörlega og veist hvað þú ert að segja,“ bætir hann við. Í gegnum tónlistina sé hann að kanna nýja hluti og hliðar á alls kyns málefnum sem hann tengir við, raunveruleikann og hvernig hann sér hann. „Það er eina leiðin fyrir mig að gera þetta.“ 

„Fokk, er ég að segja of mikið?“ 

En hvað finnst mömmu um hina hreinskilnu texta? „Ég held að mamma mín sé bara mjög stolt af mér,“ segir Birnir og bætir við að hún sé ótrúlega ánægð með þetta allt saman. „Mér er frekar sama ef ég minnist á eitthvað stöff þar sem ég er að segja eitthvað um einhvern. En þegar það kemur að fjölskyldunni, mömmu, þá verður maður svolítið að láta vita og tékka hvað henni finnst um það.“ Stundum staldri hann við og hugsi: „Fokk, er ég að segja of mikið?“ 

Sumir gætu haldið að hann noti tónlistina til þess að biðjast afsökunar á misgjörðum sínum en Birnir segir það ekki alveg vera raunina. „En ég nota þetta mjög mikið sem verkfæri. Mér finnst ég vera heppinn að geta gert þetta á þennan hátt og vilja gera það,“ segir hann. „Núna setti ég svo mikið í þessa plötu og talaði svo mikið um sjálfan mig og líf mitt upp að þessum punkti að ég bara veit ekki hvað ég á að tala um næst,“ bætir Birnir við og hlær.  

„Þetta á að vera í einhverju jafnvægi“ 

Á plötunni má finna tvær gerðir af Birni, hinn klassíska harða rappara en einnig hinn rólega Birni með viðkvæma indí tóna. „Það sem mér fannst mjög mikilvægt vera í þessu að þar er ekkert lag eins,“ segir hann og bætir við að engin tvö lög fjalli um það sama. Á plötunni er að finna fimmtán lög og lagði Birnir mikið í hljóðtæknina. En þrátt fyrir það leyfði hann sér að finna jafnvægi á milli þess að fara alla leið í hljóðvinnslu á sumum lögum en taka því rólega á öðrum. „Það á líka að vera þannig, þetta á að vera í einhverju jafnvægi.“ 

Nú er Birnir búinn að slá ákveðinn botn í útgáfu plötunnar eftir tónleika helgarinnar og tekur við afslappað sumar með vinum og vandamönnum. „Ég ætla bara að reyna að gera miklu meiri músík, spila meira og njóta lífsins með fjölskyldu og vinum. Og vera mikið úti á landi,“ segir hann.  

Rætt var við Birni Sigurðarson í Popplandi á Rás 2. Hægt er að hlýða á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.  

Tengdar fréttir

Tónlist

Stundum erfitt að vera stoltur af sjálfum sér

Tónlist

„Vildi svo skemmtilega til að ég kann á hjólaskauta“

Tónlist

„En ég vil bara hafa það þannig“