Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ölgerðin skráð í Kauphöllina

09.06.2022 - 11:25
Mynd: RÚV / Ölgerðin
Fyrsti viðskiptadagur með hlutabréf í Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni er í dag á aðalmarkaði Nasdaq á Íslandi. Félagið fær því um 7000 nýja hluthafa. Viðskiptin fara rólega af stað og hafa sveiflast eilítið, eða í kringum 10 krónur á hlut í um 225 viðskiptum.

Andri Þór Guðmundsson forstjóri Ölgerðarinnar opnaði viðskipti með hlutabréf félagsins í höfuðstöðvum þess í morgun. Hann hringdi inn þessa nýju tíma í sögu fyrirtækisins með því að láta glymja í gamalli bjöllu sem lengi var notuð til að kalla starfsfólk til matar- og kaffitíma.

Sjö þúsund nýir hluthafar

Andri sagði að hann væri stoltur af starfsfólkinu sem hefði borið uppi starfsemi fyrirtækisins að undanförnu. Við skráningu fái fyrirtækið um 7.000 nýja hluthafa sem verði bakland þess úti í samfélaginu. Hann sagðist treysta því að nýju hluthafarnir veldu frekar vörur fyrirtækisins en samkeppnisaðilanna þegar þeir færu næst í verslunarleiðangur.

„Skál fyrir Ölgerðinni og starfsfólkinu,“ sagði forstjórinn af tilefni skráningarinnar og lyfti dós með Kristal, sem er ein af vinsælustu söluvörum fyrirtækisins.

Fyrstu viðskipti með bréf í félaginu fara rólega af stað og hafa sveiflast eilítið frá 9,91 krónu upp í 10.04 krónur á hlut í um 225 viðskiptum. Opnunarverð var 10,04 á hlut við opnum viðskipta kl. 9.30 í morgun. 

Gamall draumur að rætast

Andri segir í samtali við fréttastofu að þetta sé stór dagur fyrir fyrirtækið. Mikil spenna hafi verið í loftinu meðal starfsfólks sem hafi fylgst með fyrstu viðskiptunum með bréf félagsins. Skráningin hafi mikla þýðingu og gefi stjórnendum möguleika á vexti og tryggi aðgengi að fjármagni. 

Gamall draumur sé í raun að rætast með skráningunni um að koma Ölgerðinni í hendur almennings, þessa 109 ára fyrirtækis, sem hafi verið leiðandi á drykkjarvörumarkaði frá stofnun árið 1913.

Mikil breidd sé í nýja hluthafahópnum, töluverður fjöldi ungs fólks hafi ákveðið að fjárfesta í félaginu. Andri segir flesta líta á slík hlutabréfaviðskipti sem fjárfestingu til langs tíma. 

„Við höfum alltaf verið dugleg í vöruþróun og gerum miklar kröfur til sjálfs okkar og viljum halda áfram að vaxa. Við viljum líka svara kalli neytenda eftir hollari valkostum og leggjum áherslu á að þróa vörur sem eru betri með minni sykri, eru hollari og hafa eiginleika til heilsubótar,“ segir Andri Þór.

Starfsfólk eignast hlutabréf

Athygli vakti nýverið þegar stjórn Ölgerðarinnar ákvað að gefa fastráðnu starfsfólki hlutabréf í félaginu í aðdraganda útboðs og skráningar á markað. Andri Þór sagði við það tækifæri að með gjöfinni væri verið að verðlauna starfsfólk fyrirtækisins fyrir vel unnin störf að undanförnu og mikið álag, einkum vegna faraldursins. 

29,5% í félaginu var boðið fjárfestum í úboði í lok maí og var margföld umframeftirspurn eftir bréfum í félaginu. Alls bárust um 6.600 áskriftir fyrir rúmlega 32 milljarða króna. Söluandvirði samþykktra áskrifta nam samtals 7,9 milljörðum króna.

Malt og appelsín áfram um aldur og ævi

En hvað með þekktustu vörur Ölgerðarinnar, verður áfram hægt að kaupa malt og appelsín fyrir jólin? 

„Já, miðað við eftirspurnina frá neytendum, þá held ég að það séu allmörg ár þangað til við förum að íhuga það að hætta framleiðslu á maltinu og appelsíni,“ segir Andri og segist vona að framleiðslu á malti verði aldrei hætt.

„Maltið er fyrsta varan sem framleidd var hjá Ölgerðinni árið 1913 í kjallaraholu í Templarasundi og við erum enn að selja hundruð þúsunda lítra af malti. Ég vona að það verði framleitt um aldur og ævi,“ segir forstjóri Ölgerðar Egils Skallagrímssonar.