Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Fyrrum vistmaður vill að þjóðfélagið læri af sögunni

09.06.2022 - 19:00
Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Karlmaður sem bjó á vistheimilum í 15 ár vill að í kjölfar skýrslunnar, sem birt var í gær, að haldið verði áfram að rannsaka aðbúnað og meðferð á fólki svo að þjóðfélagið geti lært af þeim. Sjálfur var hann beittur ofbeldi á öllum heimilunum. 

Ólafur Hafsteinn Einarsson er 61 árs. Frá 1975 til 1990 var hann á vistheimilum og síðan bjó hann á sambýli í Kópavogi í 22 ár þar til hann loks flutti í íbúð 2011 rúmlega fimmtugur. 

„Þegar ég var krakki þá var ég á Sólheimum í smá tíma og laminn þar og barinn,“ segir Ólafur Hafsteinn.

„Þetta var allt ofbeldi sem var á þessum stöðum. En bara svona ekki endilega laminn á öllum stöðum. Þetta var bara ofbeldi munnlega. Þetta var svona bara ofbeldi yfir höfuð.“

Ólafur var fyrst í Arnarholti, svo Skaftholti og síðan á Bitru. Bitra var reyndar ekki vistheimili heldur kvennafangelsi og þar þótti honum dvölin verst.

Skýrslan, sem birt var í gær, er eins og Ólafur bjóst við að hún yrði en sjálfur hefur hann verið í samstarfi við réttindagæslumann, Þroskahjálp og Öryrkjabandalagið. 

„Þetta var náttúrulega hörmung en það var nú kannski aðeins grófara heldur en ég hélt að hún yrði sko.“

Hvað viltu að komi út úr þessum rannsóknum? 

„Ég vil að það komi af hverju þessi harðindi þurftu að vera á öllu fólki sem var á þessum stofnunum.“

Fullorðinsævi sína hefur Ólafur aðeins búið einn í ellefu ár. Þegar hann komst út úr þessu og fékk loks íbúð 2011 fannst honum hann vinna mesta sigurinn. Hann er ánægður með að nú eigi að rannsaka meðferð og aðbúnað allt aftur til 1970: 

„Svo að fólk geti, bara í þjóðfélaginu, séð og heyrt að það verði lært af þessum hlutum.“