Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Enginn í smitgát eða sóttkví vegna apabólusmitanna

09.06.2022 - 18:49
Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Sóttvarnalæknir býst við að fleiri greinist með apabólu hérlendis. Tveir karlmenn greindust í gær. Enginn er í sóttkví eða smitgát vegna þeirra og smitrakning lokið.

Mennirnir eru á miðjum aldri og fengu jákvætt sýni í gær, sem þarf að senda til útlanda til staðfestingar en yfirgnæfandi líkur eru á því að greiningin sé rétt, að mati sóttvarnalæknis. Mennirnir eru ekki mikið veikir, þeir tengjast og tengjast smitin ferðalögum annars þeirra frá Evrópu. Þórólfur segir ekki staðfest hvar þeir voru.

„Þeir eru heima í einangrun og við þurfum eiginlega að hafa fólk í einangrun þar til að síðasta bólan er gróin og þurr. Það geta liðið allt upp í þrjár til fjórar vikur þar til það gerist,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Smitrakningu lokið

Smitrakning er í höndum smitsjúkdómadeildar Landspítala. Starfandi yfirlæknir þar segir að enginn sé sem stendur í smitgát eða sóttkví og smitrakningu lokið. „Ég held við megum búast við því að sjá fleiri sem að greinist núna á næstunni.“

Er þá líklegt að við þurfum að fara í einhverskonar sóttvarnatakmarkanir, vegna apabólu? „Nei, það finnst mér nú ekki.“

Þórólfur telur að apabóla verði ekki að útbreiddum faraldri. Þetta er ekki bráðsmitandi veirusjúkdómur heldur smitast aðallega við nána og langvarandi snertingu eins og kynmök, eða með dropum frá öndunarvegi. Fólk er hvatt til að forðast náin samneyti við ókunnuga, sérstaklega á ferðalögum erlendis. Þeir sem fá einkenni; bólur eða blöðrur, sérstaklega á kynfærum, eiga að hafa samband símleiðis við smitsjúkdómadeild eða húð- og kynsjúkdómadeild Landspítala. Þá getur smit borist með fatnaði, handklæðum og rúmfötum.

Löng einangrun íþyngjandi

„Alvarlegar sýkingar eru sem betur fer fátíðar. Þetta er yfirleitt sjúkdómur sem gengur yfir að sjálfu sér. Þetta getur verið íþyngjandi fyrir þá sem í þessu lenda og það er full ástæða til að hafa ákveðnar áhyggjur af því. Maður veit ekki hvaða afleiðingar það hefur í sjálfu sér, með bólur og veikindi og annað, við eigum eftir að læra meira um þennan sjúkdóm á næstu mánuðum og vikum.“

Óvíst er hvenær bóluefni við apabólu berst til landsins. Líklega fá þau bólusetningu sem eru útsett og líklegri til að veikjast alvarlega, til dæmis þau sem eru með undirliggjandi sjúkdóma. Heilbrigðisyfirvöld hafa lagt inn pöntun fyrir 80 skömmtum. „Svo þurfum við að sjá hvort við fáum þá eða ekki.“

Eru þá 80 skammtar nóg? „Við fáum ekki meira, hvort sem við viljum eða ekki, það er ekki til meira bóluefni á markaðnum.“