Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Nærri helmingur sveitarfélaga hunsaði vistheimilahóp

Mynd: RÚV - Bragi Valgeirsson / RÚV
Nærri helmingur sveitarfélaga landsins hunsaði ítrekaðar óskir starfshópsins sem skilaði skýrslu í dag og skoðaði meðferð á fólki með fötlun og geðræn vandamál. Meðal þeirra sveitarfélaga eru bæði fjórðu og fimmtu fjölmennustu sveitarfélög landsins. Framkvæmdastjóri Þroskahjálpar segir vanta betra eftirlit með þessu berskjaldaða fólki. 

Þegar forsætisráðherra skipar starfshóp til að undibúa rannsókn sem þessa samkvæmt ályktun Alþingis þá mætti ætla að þau sem hópurinn leitaði upplýsinga hjá myndu láta svo lítið að svara. Það var öðru nær. Embætti landlæknis svaraði ekki. Það gegnir eftirlitshlutverki með aðbúnaði og meðferð fatlaðs fólks með þroskahömlun og fólks með geðrænan vanda á heilbrigðisstofnunum. Sama er að segja um sveitarfélögin. 

31 sveitarfélag af 69 svaraði ekki

Af 69 sveitarfélögum svaraði 31 sveitarfélag ekki erindi nefndarinnar þrátt fyrir ítrekanir. Erfitt er að ímynda sér hvað veldur þessu sinnuleysi. Hömlur af völdum kórónuveirufaraldursins eru varla afsökun enda komu þær niður á öllum sveitarfélögum landsins. 

Á Vesturlandi voru heimtur rýrar, sjö sveitarfélög hunsuðu erindi starfshópsins. Það voru Snæfellsbær, Grundarfjarðarbær, Helgafellssveit, Eyja- og Miklaholtshreppur, Stykkishólmsbær, Borgarbyggð og Hvalfjarðarsveit.

Tvö sveitarfélög á Vestfjörðum svöruðu ekki. Það voru Bolungarvíkurkaupstaður og Súðavíkurhreppur.

Ástandið var verra á Norðurlandi vestra því svör bárust ekki frá neinu sveitarfélagi. Þau eru Húnaþing vestra, Húnavatnshreppur, Sveitarfélagið Skagafjörður, Akrahreppur, Blönduósbær, Skagabyggð og Sveitarfélagið Skagaströnd.

Níu sveitarfélög á Norðurlandi eystra svöruðu ekki þar af fimmta fjölmennasta sveitarfélag landsins, Akureyrarbær. Önnur voru Hörgársveit, Svalbarðsstrandarhreppur, Grýtubakkahreppur, Þingeyjarsveit, Skútustaðahreppur, Tjörneshreppur, Svalbarðshreppur og Langanesbyggð.

Austurland og Suðurland skara fram úr og svör bárust þaðan.

Suðurnes eru andstæða fyrrnefndra tveggja landshluta, ekkert sveitarfélag svaraði þar með talið fjórða fjölmennasta sveitarfélag landsins, Reykjanesbær. Þessi sveitarfélög eru Reykjanesbær, Suðurnesjabær, Grindavíkurbær og Sveitarfélagið Vogar.

Á höfuðborgarsvæðinu svöruðu öll nema Seltjarnarnesbær og Kjósarhreppur. 

Vantar miklu betra eftirlit

Árni Múli Jónasson framkvæmdastjóri Þroskahjálpar furðar sig á sinnuleysi svo margra sveitarfélaga en líst fljótt á litið vel á tillögurnar í skýrslunni og er ánægður með að rannsóknin verði á vegum Alþingis en ekki framkvæmdavaldsins en hefði viljað að rannsóknin næði lengra aftur en 1970: 

„Þetta eru sögur sem verður að segja, bæði til þess að fólk fái réttlæti og að það sé viðurkennt að það var komið fram við það með gjörsamlega óásættanlegum hætti og svo hitt að við lærum af þessu. Það vantar miklu betra eftirlit með þessu berskjaldaða fólki sem er tekið út úr samfélaginu og sett á stofnanir og komið fyrir einhvers staðar. Og það þýðir auðvitað það að fólk er sett í aðstæður þar sem er mikil hætta á því að það njóti ekki lágmarksréttinda,“ segir Árni Múli. 

Skýrsluna má sjá hér á vef Stjórnarráðsins.