„Ætla ekki að þegja og láta eins og þetta skipti engu“

08.06.2022 - 13:38
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Akureyri segir að kjörnir bæjarfulltrúar megi oft þola baktal, niðurlægingu og ósannindi. Starfið hafi tekið mikið á hana og fjölskyldu hennar og hún ætli ekki að sitja þegjandi og hljóðalaust undir árásum.

Niðurstöður kosninganna vonbrigði

Samfylkingin hlaut 12 prósent atkvæða og einn bæjarfulltrúa í nýliðnum sveitarstjórnarkosningum. Flokkurinn, sem var í meirihluta allt síðasta kjörtímabil, er kominn í minnihluta eftir að Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkur og L-Listi mynduðu nýjan meirihluta í bæjarstjórn. Hilda Jana Gísladóttir, oddviti Samfylkingarinnar, viðurkennir að niðurstöður kosninganna hafi verið vonbrigði. Nú taki við vinna í minnihluta gegn meirihluta sem hún telur að eigi eftir að valda bæjarbúum vonbrigðum. 

Líst illa á nýja bæjarstjórn

„Ef ég á að segja alveg eins og er þá líst mér bara alls ekkert vel á það. Ég óttast, að sérstaklega viðkvæmir hópar í samfélaginu, að þeir muni ekki fá nægilega mikla athygli. Velferðarmálin, málaflokkur fatlaðs fólks, félagslegar leiguíbúðir. Ég óttast að umhverfis- og loftslagsmálin muni týnast og svo að það eigi að fara í skurðgröfuham í skipulagsmálum því það er svo mikið kapp lagt á að ætla að framkvæma ofboðslega mikið á stuttum tíma að það eigi sleppa því að fara eftir þeim meginreglum sem við viljum að hið opinbera standi fyrir með takmörkuð gæði almennings. Síðan óttast ég það líka að það verði alveg svakalega mikil áhersla á íþróttamál vs. önnur mál sem skipta líka ofsalega miklu máli. Ég óttast líka að þau séu kannski ekki alveg búin að ákveða hvað þau ætla að gera sem gerir það að verkum að þetta verði svolítið viðbragð við hlutum sem muni valda bæjarbúum vonbrigðum,“ segir Hilda. 

Viðræður snúast fyrst og fremst um stóla og laun

Hvernig fara svona viðræður fram, nú segja einhverjir að þetta snúist bara um hver verði forseti bæjarstjórnar, hver verður formaður bæjarráðs og hver fær bestu stöðurnar og hæstu launin, er það raunin?

„Já, það er mín reynsla sko. Ég hef nú stundum sagt að það sé betra að vera einföld en tvöföld en ég er alla vega tiltölulega einföld þegar kemur að þessu. Bæði síðast og núna þá voru það meginmálin. Þú veist, það er bara, þú verður að komast í meirihluta og verður að ná sem flestum formennskum og hæstu launum fyrir þig og þitt fólk.“ 

Öskur, lygar og baktal

Hilda skrifaði færslu á Facebook í vikunni þar sem hún sagði efiðara en hún átti von á að upplifa öskur, baktal, niðurlægingu og ósannindi í stöfum sínum sem bæjarfulltrúi. „Mér finnst þetta búið að vera viðbjóðslega erfitt ef ég á að segja alveg eins og er. Þetta er búið að reyna á mig, fjölskylduna mína, börnin mín, en samt er ég bara í einhverri sveitarstjórnarpólitík í smábæ norður í landi, nei stórborg fyrirgefðu. En ég hefði eiginlega aldrei fyrirfram trúað því hvað þetta er brútal. Þessi öskur, niðurlæging, lygar. Bæði frá fólki sem maður er að vinna með í bæjarstjórn og fólki út í bæ. Ég sit eiginlega ótrúlega svekkt með það. En að sama skapi þá heyrst svo ofboðslega hátt í þessum fáu trylltu og ekkert allir bæjarfulltrúar og alls ekkert allir bæjarbúar, langt því frá. Þannig að maður þarf líka að snúa hausnum við og segja, hverja viljum við hafa í stjórnmálum fyrir okkur? Á það að vera járnfólk sem er alveg drull þó að einhver ráðist að þeim og þeirra fjölskyldum og sé svo hart fólk að það fái ekki á þá. Nei, það er líka fullt af fólki sem er ánægt með það sem maður hefur verið að gera og hrósar manni og hvetur mann til dáða. En því miður er algengasta spurningin sem ég fæ um vinnuna mína, hvernig nennirðu þessu?“

Færsla Hildu

„Get alveg verið lítil mús og fundist þetta erfitt“

En nú gæti einhver sagt sem er að hlusta, þú ert kosin inn þarna, þú veist hvað þú ert að ganga inn í, þú færð laun, þarftu ekki bara að geta tekið smá skít?

„Örugglega en ég hef oft pælt í því, þeir sem eru að bjóða sig fram. Þeir eru svona eins og fólk sem er að sækja um vinnu hjá þér. Hvernig vinnuveitandi viltu vera sem almenningur? Ég er ekkert alveg tilbúin til að sætta mig við það, hvort sem það er þarna eða annars staðar að fólki leyfist hvað sem er. Auðvitað verður maður að læra að taka þessu en ég ætla ekki að þegja og láta eins og þetta skipti engu máli og ég sé svaka köld kerling. Ég get alveg verið lítil mús og fundist þetta erfitt og ég ætla bara vera heiðarleg með það.“

Hún segir erfiðara að taka móti gagnrýn frá samstarfsmönnum en almennum bæjarbúum. „Ég held það sé erfiðara þegar það eru samstarfsfélagar manns í bæjarstjórn, mér finnst það þyngra. Það er auðveldara þegar það er einhver sem í rauninni veit ekkert hvað er í gangi sem er eitthvað að flippa á Facebook. Ég finn ekkert að ég fari í fósturstellinguna yfir því. En mér finnst erfitt þegar það er innan bæjarstjórnar. En sem betur fer eru það fáir, það er sjaldan og maður kemst yfir það. En það er dapurlegt.“

Er þetta eitthvað sem þú fannst frá fólkinu sem þú varst að vinna með? 

„Sumu.“ 

„Auðvitað er það bara ömurlegt“

Hún vonar að menningin muni með tímanum breytast í stjórnmálum. Það megi ekki verða þannig að öskur og læti beri ábyrgð. „Ég meina, auðvitað er það bara ömurlegt og ömurlegt hvar sem er. En við sjáum þetta samt svo víða, hvort sem það er í stjórnmálum eða í viðskiptalífinu. Það virðist vera að sá sem öskrar hæst, eða jafnvel treystir sér jafnvel til þess að niðurlægja og fara aðeins svindlaðferðir að hlutunum, þeir sitja uppi með pálmann í höndunum og við þurfum að vinna gegn því.“