Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Velkominn Árni hlaut áhorfendaverðlaun Skjaldborgar

Mynd með færslu
 Mynd: Patrik Ontkovic - Skjaldborg

Velkominn Árni hlaut áhorfendaverðlaun Skjaldborgar

07.06.2022 - 14:40

Höfundar

Mikil stemmning var á Patreksfirði um helgina þar sem heimildamyndahátíðin Skjaldborg fór fram í fimmtánda sinn. Hátíðinni lauk formlega í gærkvöld þegar verðlaunaafhending fór fram í Félagsheimili Patreksfjarðar.

Tíu íslenskar heimildamyndir voru frumsýndar og sex verk í vinnslu voru kynnt á hátíðinni. 

Heimildamyndin Velkominn Árni eftir Viktoríu Hermannsdóttur, dagskrárgerðarkonu á RÚV, og Allan Sigurðsson hlaut áhorfendaverðlaunin Einarinn. Myndin fjallar um Árna Jón Árnason, sem kemst óvænt að því á áttræðisaldri hver faðir hans gæti hafa verið.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjaldborg
Viktoría Hermannsdóttir og Allan Sigurðsson.

Heimildamyndin Hækkum rána eftir Guðjón Ragnarsson hlaut dómnefndarverðlaunin, Ljóskastarann. Myndin fjallar um körfuboltalið ungra stúlkna sem vildu breyta viðmiðum í kvennakörfu á Íslandi árið 2015. Guðjón var ekki viðstaddur hátíðina en Margrét Jónasdóttir, framleiðandi myndarinnar, veitti þeim viðtöku fyrir hönd Sagafilm. 

Mynd með færslu
 Mynd: Skjaldborg
Margrét Jónasdóttir.

Hvatningarverðlaun Skjaldborgar hlaut myndin Thinking about the Weather eftir Garðar Þór Þorkelsson.  Myndin fjallar um loftslagskvíða. „Myndin nær að kjarna viðfangsefnið á fyndinn, skapandi, einstakan, og jafnframt absúrd máta. Hér er á ferðinni sterk höfundarrödd og dómnefndin vill hvetja þessa rödd til frekari verka,” segir í umsögn dómnefndar. 

Mynd með færslu
 Mynd: Skjaldborg
Garðar Þór Þorkelsson. 

Kristján Loðmfjörð, Hrönn Sveinsdóttir og Anna Gyða Sigurgísladóttir, skipuðu dómnefndina í ár.