Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Skera þarf niður í fjármálaáætlun og ósamið um mörg mál

07.06.2022 - 19:10
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett - RÚV
Viðbúið er að skera þurfi stórlega niður í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára. Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks segir ljóst að gera þurfi breytingar, nóg sé að líta á hagtölur til að átta sig á því. Frumvarp dómsmálaráðherra um útlendinga stendur í þinginu.

Enn hefur ekki verið samið um afgreiðslu mála á Alþingi þrátt fyrir stíf fundahöld þingflokksformanna og sagði forseti Alþingis í hádegisfréttum ljóst að þingstörfum verði ekki frestað í vikulok eins og stefnt var að.

Frumvarp dómsmálaráðherra um útlendinga hefur setið fast en Samfylking, Viðreisn og Flokkur fólksins lögðu breytingartillögur í sex liðum fyrir ráðherra í gær sem nú eru til skoðunar. Helga Vala Helgadóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, er bjartsýn á að dómsmálaráðherra fallist á þessar tillögur.

„Já, við erum það. Þetta er byggt á bestu þekkingu sérfræðings sem við erum með sem vann þetta með okkur,“ segir Helga Vala.

Óli Björn Kárason, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks, segir að ef takist að semja um afgreiðslu frumvarps dómsmálaráðherra um útlendinga þá verði tiltölulega auðvelt að semja um afgreiðslu annarra mála. Markmiðið sé að reyna að klára þinghaldið með sóma fyrir þjóðhátíðardaginn þótt ekkert sé hægt að segja um það með vissu. 

„Mér þótti ánægjulegt að verða vitni að því hvernig meirihluti minnihlutans eða það er að segja Viðreisn, Flokkur fólksins og Samfylkingin nálguðust þetta mál.“

Hvort það leiði til niðurstöðu, segir Óli Björn, og sátt verði um frumvarpið á þessu þingi eða ekki eigi hins vegar eftir að koma í ljós og skýrist ekki á næstu klukkustundum.

Breytingar nauðsynlegar á fjármálaáætlun

En meðal þeirra mála sem líka eru óafgreidd frá Alþingi er fjármálaáætlun næstu fimm ára sem enn hefur ekki verið afgreidd úr fjárlaganefnd og viðbúið er að taki miklum breytingum.

„Ég held að það sé alveg ljóst að það þurfi að gera ákveðnar breytingar. Bara menn þurfa ekki annað en að horfa á hagtölur til að komast að því að það þarf að gera ákveðnar breytingar á fjármálaáætluninni. Þær breytingartillögur er verið að vinna í ráðuneytinu og hjá meirihluta nefndarinnar og þær líta dagsins ljós á næstu sólarhringum,“ segir Óli Björn.

Helga Vala segist ekki sjá hvernig eigi að ljúka umfjöllun um fjármálaáætlun í næstu viku.

„Ég held að ríkisstjórnin viti ekki alveg hvernig hún eigi að leysa þá stöðu sem uppi er. Þau eru ekki sammála um hvaða leiðir á að fara. Maður finnur það að ríkisstjórnin er ekki eins samstíga og hún var á síðasta kjörtímabili og ég held að það sé að valda þeim titringi sem uppi er,“ segir Helga Vala.

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV