
Hundsa beiðnir Bandaríkjanna um viðræður
Fimm ár eru brátt liðin frá því Norður-Kóreustjórn gerði tilraun með kjarnorkuvopn. Tilkynnt var um að þeim yrði hætt í apríl 2018. Þá sagði Kim Jong-un óþarft að gera frekari tilraunir þar sem ríkið hafði sýnt kjarnorkumátt sinn.
Sú tilkynning barst í aðdraganda viðræðna Kim við Donald Trump, þáverandi forseta Bandaríkjanna. Þrátt fyrir undirritun viljayfirlýsinga um afvopnun Kóreuskagans hefur lítið gerst síðan og algjört frost verið í viðræðunum síðustu misseri.
Sung Kim, sendifulltrúi Bandaríkjanna gagnvart Norður-Kóreu, sagði við fréttamenn í dag að norðurkóresk stjórnvöld hafi ekki ansað ítrekuðum beiðnum Bandaríkjanna um að hefja viðræður á ný.
Sagði hann að Joe Biden forseti og Antony Blinken utanríkisráðherra hafi oftsinnis sagst vilja ræða við norðurkóresk stjórnvöld sem og aðstoða þau í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn en að ekkert hafi gerst.
Þá sagði sendifulltrúinn að Bandaríkjastjórn búist við því að Norður-Kórea geri tilraun með kjarnorkuvopn á ný í náinni framtíð. Norðurkóreskir embættismenn hafi gefið í skyn að þeir séu reiðubúnir að beita slíkum vopnum.