Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hundsa beiðnir Bandaríkjanna um viðræður

07.06.2022 - 17:18
In this photo provided by the North Korean government, North Korean leader Kim Jong Un, center, attends a meeting of the Central Committee of the ruling Workers' Party in Pyongyang, North Korea Thursday, May 12, 2022. Independent journalists were not given access to cover the event depicted in this image distributed by the North Korean government. The content of this image is as provided and cannot be independently verified.  (Korean Central News Agency/Korea News Service via AP)
Kim Jong Un í öndvegi á neyðarfundi miðnefndar Verkamannaflokks Norður Kóreu vegna fyrsta, staðfesta COVID-19-tilfellisins í landinu. Mynd: AP
Sendifulltrúi Bandaríkjanna gagnvart Norður-Kóreu segir norðurkóresk stjórnvöld hafa hundað allar beiðnir Bandaríkjamanna um viðræður. Búist er við að einræðisríkið geri sína sjöundu kjarnorkutilraun í bráð.

Fimm ár eru brátt liðin frá því Norður-Kóreustjórn gerði tilraun með kjarnorkuvopn. Tilkynnt var um að þeim yrði hætt í apríl 2018. Þá sagði Kim Jong-un óþarft að gera frekari tilraunir þar sem ríkið hafði sýnt kjarnorkumátt sinn.

Sú tilkynning barst í aðdraganda viðræðna Kim við Donald Trump, þáverandi forseta Bandaríkjanna. Þrátt fyrir undirritun viljayfirlýsinga um afvopnun Kóreuskagans hefur lítið gerst síðan og algjört frost verið í viðræðunum síðustu misseri.

Sung Kim, sendifulltrúi Bandaríkjanna gagnvart Norður-Kóreu, sagði við fréttamenn í dag að norðurkóresk stjórnvöld hafi ekki ansað ítrekuðum beiðnum Bandaríkjanna um að hefja viðræður á ný. 

Sagði hann að Joe Biden forseti og Antony Blinken utanríkisráðherra hafi oftsinnis sagst vilja ræða við norðurkóresk stjórnvöld sem og aðstoða þau í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn en að ekkert hafi gerst.

Þá sagði sendifulltrúinn að Bandaríkjastjórn búist við því að Norður-Kórea geri tilraun með kjarnorkuvopn á ný í náinni framtíð. Norðurkóreskir embættismenn hafi gefið í skyn að þeir séu reiðubúnir að beita slíkum vopnum.

Þórgnýr Einar Albertsson