„Ekki hægt að telja upp í 12 með Sjálfstæðisflokki“

Mynd: Ragnar Visage / RÚV
Einar Þorsteinsson oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík og formaður borgarráðs hafnar gagnrýni á að engar breytingar verði á stjórn borgarinnar. Fáir möguleikar hafi verið í myndun meirihuta, ekki hafi verið hægt að telja upp í meirihluta með Sjálfstæðisflokki og það hefði verið ábyrgðarhluti að láta myndun meirihluta dragast fram á sumar.

Einar var gestur Morgunútvarps Rásar 2 í morgun og ræddi þar fyrirætlanir meirihluta Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar sem kynntur var í gær. Hann var þar spurður um gagnrýni á að Framsókn, sem hefði í kosningabaráttunni boðað breytingar, væri að ganga til liðs við gamla meirihlutann og þannig stuðla að óbreyttu stjórnarfari. Einar hafnaði því.

„Það var Framsókn sem felldi meirihlutann og knúði fram breytingar á borgarstjórn,“ segir Einar.

„Síðan eftir kosningar teiknast upp þessi staða; að margir flokkar útiloka aðra flokka, aðallega Sjálfstæðisflokk. Það var einfaldlega þannig að það var ekki hægt að telja upp í 12 - það var ekki hægt að telja upp í meirihluta með sjálfstæðismönnum.“

Einar segir að honum hafi þótt eðlilegast í kjölfar úrslita borgarstjórnarkosninganna 14. maí að þeir flokkar, sem voru í minnihluta í borgarstjórn, ræddu saman, væri vilji til þess.

Ábyrgðarhluti að láta meirihlutamyndun dragast

„Svo kemur það á daginn að það er enginn grundvöllur fyrir samstarfi til hægri. Ég gaf því mjög góðan tíma, 10 daga á meðan þessar þreifingar voru að eiga sér stað. En eftir þessa 10 daga var ljóst að það yrði ekkert komist áfram með það.“

Það hefði verið ábyrgðarhluti, að mati Einars, að láta myndun meirihluta dragast fram á sumar. „Kjósendur voru ekki að kjósa þær breytingar að það yrði einhver stjórnarkreppa í Reykjavík, að öll ákvarðanataka myndi stöðvast og óvissa yrði í stjórnmálum. “

Einar segir að því hafi sú leið verið valin að hefja viðræður við þrjá af þeim flokkum sem voru í meirihluta á nýliðnu kjörtímabili. „Um myndun nýs meirihluta, út frá miðjunni, utan um breytingar í Reykjavík. “

Einar segir að þegar sáttmálinn, sem kynntur var í gær sé skoðaður, sé augljóst að breytinga sé að vænta:

„Það þarf mikinn vilja til að lesa að það séu ekki breytingar í honum.“

Einar segir að heldur megi ekki gleyma að breytingar verði í æðstu stöðum borgarinnar.  „Þeir [kjósendur Framsóknar] kusu sér nýjan borgarstjóra 
sem mun taka við eftir 18 mánuði og mun gegna því embætti meirihluta kjörtímabilsins. Þannig að ég er alveg óhræddur við að segja það að kjósendur Framsóknar fengu talsvert fyrir sitt atkvæði.“