Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ekki fengið nægar skýringar frá breskum yfirvöldum

07.06.2022 - 13:33
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsent
Forráðamenn Niceair hafa enn ekki fengið fullnægjandi skýringar á hvers vegna félaginu var ekki heimilað að fljúga frá Stansted-flugvelli í London til Akureyrar á föstudag.

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Niceair, segist því ekki vita nákvæmlega um hvað málið snýst.

Það hafi komið þeim algerlega í opna skjöldu að geta ekki flogið frá London eins og til stóð. Í öllum þeim samskiptum sem félagið hafi átt við bresk yfirvöld undanfarnar vikur hafi ekkert komið upp sem benti til að neitt þessu líkt gæti gerst.

Í kjölfarið tók Niceair flugferðir til London og Manchester úr sölu í öryggisskyni á meðan lausn er fundin.

Flogið var milli Akureyrar og Stansted í gær og segir Þorvaldur það hafa verið gert með sérstöku samkomulagi við bresk yfirvöld. Hann segist á þessarri stundu ekki geta sagt til um þróunina næstu daga.