Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vilja ná jafnvægi með skiptingu borgarstjóraembættisins

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson/Kristin / RÚV
Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, segir að nýr meirihluti stefni að því að gera Reykjavík að hagstæðasta kostinum fyrir fjölskyldur. Stefnt er að því halda útsvari og fasteignasköttum óbreyttum og lögð verður áhersla á mál barna.

Þetta sagði Dagur í samtali við fréttastofu eftir blaðamannafund þar sem nýr meirihluti og málefnasamningur var kynntur.

Dagur situr áfram sem borgarstjóri til loka árs 2023, þegar Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar, tekur við. „Það er til að hafa þetta gullna jafnvægi milli þess að nýta reynsluna en líka fá inn nýjan mann og nýjan hóp.“ 

Hann segir að fyrir kosningar hafi verið ákall eftir breytingum, en einnig hafi kannanir sýnt að margir vildi að Dagur sæti áfram í borgarstjórastólnum.

Meirihlutinn stefnir að því að bæta vinnubrögð og vinnuumhverfi í ráðhúsinu. Mikilvægt sé að raddir minnihlutans fái einnig að hljóma. Talsvert var rætt um erfiða stemmningu í borgarstjórn á síðasta kjörtímabili, en Dagur segir að þótt ásýndin í borgarpólitíkinni sé oft grimm séu verkefni borgarstjórnar mikilvæg.

Þess vegna vonast hann eftir góðu samtali við minnihlutann sem leiði til betra vinnuumhverfis í borginni.

Hér má lesa samstarfssáttmála nýs meirihluta.