Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sáttmálinn svari öllum kröfum Framsóknar um breytingar

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson/Kristin / RÚV
Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar, tekur við af Degi B. Eggertssyni, oddvita Samfylkingarinnar, sem borgarstjóri í ársbyrjun árið 2024. Með því verður hann jafnframt fyrsti Framsóknarmaðurinn til þess að gegna embætti borgarstjóra. Þetta kom fram á blaðamannafundi í dag þar sem nýr meirihluti borgarstjórnar var kynntur.

Einar Þorsteinsson hóf fundinn á því að lýsa ánægju með samstarfssamninginn sem hann segir svara að öllu leyti kröfum Framsóknar um breytingar á næsta kjörtímabili.

Aðspurður segir hann að hægt sé að sjá breytingarnar strax á fyrstu tveimur blaðsíðum sáttmálans. 

„Það er bara einfaldlega þannig að við ætlum að byrja á því að úthluta lóðum strax Úlfarsárdal, uppi á Kjalarnesi, Gufunesi, síðan í Keldnalandinu hefst hugmyndasamkeppni um það land,“ segir Einar.

„Fyrstu skref verða tekið með umhverfismati við Sundabraut og skipulagsmál þar í kring. Það er bara gríðarlegt framkvæmd og uppbyggingaskeið að hefjast í borginni og ég hugsa að það muni braka í.“

Hefja húsnæðisátak undir stjórn Framsóknar

Einar segir að hefja eigi húsnæðisátak sem verði undir sinni stjórn í Borgarráði. Þar verði settur hópur í gang til að rýna hvar sé hægt að fara inn og flýta framkvæmdum. Það eigi einnig við um þéttingarreiti og önnur áform en umfram allt að finna leiðir og byggja hratt og vel.

„Menn eru sammála um það að það þarf að hraða uppbyggingu, byggja meira en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir og þessi samstarfssáttmáli svarar öllum kröfum Framsóknar um breytingar í Reykjavík.“

Borgarstjórastóllinn ekki skilyrði fyrir samstarfinu

Aðspurður segist Einar aldrei hafa sett nein skilyrði um borgarstjórastólinn, það hafi því ekki verið skilyrði fyrir samstarfinu.

„Við ákváðum bara saman í okkar hópi að þetta væri skynsamlegasta skiptingin á embættum og ég er bara mjög sáttur með það,“ segir Einar og bætir við að hann hlakki til að sinna starfinu.

„Þetta hefur verið mikil reynsla fyrir mig að stíga inn í þetta með skömmum fyrirvara. Ég lærði mikið í kosningabaráttunni, kynntist fólkinu í borginni vel og frá ýmsum hliðum. Ég taldi mig þó þekkja samfélagið ágætlega eftir veru mína í fjölmiðlum en þetta er alveg ný reynsla og ég nálgast þessi verkefni bara af auðmýkt og metnaði og hlakka til.“

Hér má lesa samstarfssáttmála nýs meirihluta.