Húsnæðisátak, Sundabraut og frítt í strætó fyrir börn

Mynd: Ragnar Visage / RÚV
Samstarfssáttmálinn er þrjátíu og fjórar síður en aðeins fjórtán þeirra eru með texta. Fyrst er talað um húsnæðismál - að fara í húsnæðisátak og úthluta lóðum í Úlfarsárdal, á Kjalarnesi, Hlíðarenda, Ártúnshöfða og í Gufunesi, sem og á ýmsum þéttingarreitum.

Fráfarandi meirihluti talaði líka um þéttingu byggðar og nýja blandaða byggð í Úlfarsárdal og Gufunesi og nauðsynlega uppbyggingu á Ártúnshöfða í sínum síðasta málefnasamningi.

Nýr meirihluti talar um að flýta uppbyggingu Keldnalands og Keldnaholts og flýta samhliða lagningu borgarlínu þangað. Framsókn hafði talað um uppbyggingu í Geldinganesi í kosningabaráttunni sem ekkert er minnst á í samstarfssáttmálanum. Oddviti Framsóknar vill árétta að sú orðræða var í samhengi við Sundabraut sem á að vera tilbúin eftir áratug.

Skipulagsbreytingar fyrir Sundabraut

Meirihlutinn vill byggja nýtt hverfi í Skerjafirði en taka tillit til Reykjavíkurflugvallar á byggingartíma þess. Allir samningar um innanlandsflug við ríkið verði virtir.

Þá á að hefja gerð umhverfismats og undirbúa nauðsynlegar skipulagsbreytingar fyrir Sundabraut, í samræmi við gildandi samkomulag við ríkið.

Frístundastyrkur úr 50 í 75 þúsund 

Þá ætlar meirihlutinn að hafa frítt í sund og strætó fyrir börn á grunnskólaaldri og koma á næturstrætó. Þá á að  hækka frístundastyrk úr 50 í 75 þúsund krónur. Þá ætlar nýr meirihluti að flýta eins og kostur er viðhaldi á skólahúsnæði.

Í sáttmálanum er talað um að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með fjölbreyttum aðferðum, án þess að þær séu tíundaðar mikið frekar, fyrir utan systkinaforgang og stafræna innritun og bætt starfsumhverfi í skólum. 

Lækka fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði

Útsvar helst óbreytt, samkvæmt sáttmálanum. Umræða um hækkun fasteignagjalda í kjölfar tæplega 20 prósenta hækkunar fasteignamats milli ára hefur farið hátt undanfarna daga. Í sáttmálanum segir að fasteignaskattar verði lækkaðir á atvinnuhúsnæði í lok kjörtímabils en engin loforð gefin um íbúðarhúsnæði fyrir utan að Reykjavík verði áfram hagstæð fyrir fjölskyldufólk með hliðsjón af gjaldskrá og fasteignagjöldum. 

Uppbygging íþróttamannvirkja í flestum hverfum

Á hina umtöluðu þjóðarhöll er minnst tvisvar í samstarfssáttmálanum og talað um að stofna framkvæmdanefnd um hana og aðstöðu fyrir börn og unglinga í Laugardal í samvinnu við ríkið. 

Þá er talað um að vinna að nýrri sundlaug í Fossvogi í samstarfi við Kópavogsbæ og að þróa dans- og fimleikahús í Breiðholti - sem var líka talað um í meirihlutasáttmála fráfarandi borgarstjórnar. Þar var líka talað um að þróa svæði KR í Vesturbæ en núverandi sáttmáli kveður á um fjölnota boltahús þar og að stækka fimleikaaðstöðu Fylkis.