Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Segir að söfnurum hafi fjölgað í faraldrinum

Mynd: Grímur Þór Jónsson / Fréttir

Segir að söfnurum hafi fjölgað í faraldrinum

05.06.2022 - 19:27

Höfundar

Fálkaorður, miði á sögufrægan fótboltaleik og sálmaskrár úr útförum fyrrum forseta eru meðal hluta sem stórsafnari í Reykjavík hefur sankað að sér og selur nú á uppboði. Hann segir að söfnurum hafi fjölgað mikið í faraldrinum.

Byrjaði ungur að safna

Það kennir ýmissa grasa hjá stórsafnaranum Gísla Geir Harðarsyni sem hefur safnað gömlum munum alla sína tíð. Nú hefur hann snúið sér alfarið að þessu áhugamáli sínu og býður munina upp á netinu nokkrum sinnum í mánuði. Hann segist ekki vita hvar áhuginn kviknaði. 

„En afi minn í móðurætt var af þeirri kynslóð, hann skilgreindi sig ekki með safnara, en hann hélt ýmsu til haga og í skrifborðsskúfufnni hans voru frímerki og gamlir peningar sem vöktu áhuga minn þegar ég var lítill og þetta heltók mig.“

- Eru safnarar ekkert að deyja út, hvernig er það?

„Síðustu ár hefur línan svo sem verið niður á við en síðan að covid kom höfum við fengið svokallað covid-búst þannig að söfnurum hefur fjölgað mikið og áhuginn hefur margfaldast á söfnurum og söfnunarmunum.“

Gísli Geir Harðarson stórsafnari
 Mynd: Grímur Þór Jónsson - Fréttir
Gísli Geir Harðarson

 

Hvalasaga Kjarval í eftirlæti

Hjá Gísla má meðal annars finna gamlar fálkaorður, aðgöngumiða á frægan landsleik Íslendinga í Parken í Danmörku 1967, handáritaða peningaseðla og þakkarbréf frá Halldóri Laxness. 

„Leyfið mér á þennan einfalda hátt að tjá þakkir fyrir vinarhug, auðsýndan mér í orði og verki í sambandi við veitingu Nóbelsverðlaunana 1955, Halldór Laxness,“ segir í bréfinu. 

Elsti hluturinn er brauðpeningur frá 1890 sem farið var með í bakarí Daníels G. Bernhöft í Reykjavík í skiptum fyrir brauðhleif. En eftirlæti Gísla er áritað eintak af Hvalasögunni eftir Kjarval í fyrstu útgáfu frá árinu 1956.   

„Hann er hér að árita til vinar síns sem var leigubílstjóri og keyrði hann mikið í hraunið  í Hafnarfirði og á fleiri staði.“

- Og þú átt ekkert í vandræðum með að geyma allt þetta dót?

„Ég er með pláss en það er barist um plássið hérna heima þannig konunni minni finnst þetta of mikið.“

- Hún hefur kannski hvatt þig dyggilega til að fara í þetta uppboð?

„Ja, allavega þegar fer að rýmka hér um þá fer hún að brosa.“