Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Öllum hjúkrunarfræðingum á Læknavaktinni sagt upp

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Öllum hjúkrunarfræðingum á Læknavaktinni var sagt upp störfum um mánaðamótin og færa á alla símaráðgjöf yfir til Heilsugæslunnar. Elva Björk Ragnarsdóttir, fagstjóri hjúkrunar á Læknavaktinni, segir að breytingarnar bitni á þjónustu við almenning. 

Fagleg símaráðgjöf til Heilsugæslunnar

Hjúkrunarfræðingar Læknavaktarinnar hafa staðið vaktina allan sólarhringinn og sinnt faglegri símaráðgjöf í síma 1770 fyrir allt landið, koma málum í réttan farveg, meta hvort þörf sé á frekari þjónustu og hve brátt það skuli vera. Nú hefur öllum hjúkrunarfræðingum þar verið sagt upp störfum, alls um þrjátíu talsins. 

„Það á að færa sem sagt faglega símaráðgjöf og vegvísun í heilbrigðiskerfinu til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins núna 1. september og þá verður náttúrulega engin vinna fyrir þau hér. Þetta hefur svolítið legið í loftinu þannig að við höfum á síðustu tveimur mánuðum erum við búin að missa átta hjúkrunarfræðinga sem ég vil nú eiginlega bara rekja beint til þessarar óvissu sem við höfum unnið við hérna,“ segir Elva Björk. 

Móttökuritarar hjá Heilsugæslunni eiga að taka við þjónustunni. Elva Björk undrar sig því og segir nauðsynlegt að að heilbrigðis menntaðir sinni þjónustunni. 

„Ég meina hér er eru um 80-90 prósent þeirra símtala sem hingað berast heilbrigðismenntunar til að sinna. Símanúmerið er orðið þekktara og fólk veit að það getur hringt hingað sem er að mörgu leyti jákvætt því í mörgum tilfellum getum við afstýrt óþarfa komum á bráðamóttöku og bráðamóttöku barna og hingað á læknavaktina.“

Bitni mest á landsbyggðinni

Breytingarnar kunni að hafa sérstaklega mikil áhrif á landsbyggðina, sem hefur alla jafna ekki beinan aðgang að heilbrigðisþjónustu utan dagvinnutíma. 

„Þar sem að það virðist ekki vera fullmönnun á heilsugæslunni á dagvinnutíma þá finnst mér það skjóta skökku við að vera að fara að taka að sér sólarhringsþjónustu sem krefst hjúkrunarfræðings í rauninni til þess að sinna.“

- Versnar þjónustan við almenning við þessar breytingar?

„Ég myndi halda það já, ef að fyrirkomulagið verður eins og það hefur verið kynnt fyrir mér,“ segir Elva Björk.