Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Hugtakið „kafkaískt“ er úr sér gengið

Mynd: CC / Wikimedia Commons

Hugtakið „kafkaískt“ er úr sér gengið

03.06.2022 - 13:48

Höfundar

Hvenær er eitthvað kafkaískt og hvenær ekki? Björn Halldórsson veltir fyrir sér sögum og sögusögnum og hvernig þær eru háðar vilja, túlkunum og fordómum lesandans eða áheyrandans, og fer þaðan óhjákvæmilega að hugsa um verk rithöfundarins Franz Kafka og hið gatslitna hugtak sem kennt er við hann.

Björn Halldórsson skrifar:

Svo virðist sem það færist í aukana að fólk sé lögsótt fyrir að segja sögur – bæði sínar eigin sögur og annarra. Það er ekki laust við að maður nemi örvæntingu á bak við slíkt athæfi. Að halda að hægt sé að ná valdi á sögum – orðum sem berast manna á milli úti í samfélaginu – með lögsóknum er ekki ósvipað því að halda að maður geti stýrt veðrinu með borðviftu, og síst líklegt til að draga úr vægi eða trúverðugleika sögunnar. Að það „fari sögur af einhverjum“ boðar sjaldnast gott, hvorki fyrir viðkomandi né þá sem þurfa að eiga við hann. Við getum gert okkar besta til að skapa fleiri góðar sögur en slæmar, kannski einmitt með því að vera meðvituð um eigin breyskleika og upplifanir annars fólks af gjörðum okkar, en staðreyndin er sú að við erum heldur valdlaus gagnvart þeim sögum sem af okkur fara, og lögsóknir eru ekki að fara að breyta því.

Að sama skapi er ljóst að sögur – eða sögusagnir, ef það er þá einhver munur þar á milli – spretta oft og tíðum einmitt út frá örvæntingu og valdleysi. Þegar við sjáum engar leiðir færar til að koma fram réttlæti, þá segjum við söguna af því sem gerðist. Við segjum hana öðrum til varnaðar, svo að ekki fari fyrir þeim eins og okkur sjálfum, eða vinum okkar, eða fjölskyldu okkar, eða bara einhverju ókunnugu fólki úti í bæ. Við segjum söguna til að gefa öðrum skilning á því sem gerðist, og til að fá það staðfest sem okkur sjálf grunar – að enginn eigi skilið slíka meðferð, að brot hafi átt sér stað, og að sársaukinn og valdleysistilfinningin sem því broti fylgdi séu skiljanleg og réttlætanleg viðbrögð. Þannig segjum söguna í von um að hún fái áheyrn, að tekið sé á móti henni með undrun, með auðmýkt, með samkennd, umhyggju, reiði; einhverju sem endurspeglar okkar eigin upplifun af sögunni. Fyrst og fremst segjum við þó söguna til að þurfa ekki að burðast með hana einsömul.

Einhver myndi kannski nota orðið „Kafkaískt“ um þá upplifun að vera lögsóttur fyrir það eitt að segja sögu sína. Þó að slíkar tilraunir til að hafa hemil á tungumáli og upplifunum annars fólks með dómsvaldi séu vissulega ansi súrrealískar, þá er ég ekki viss um að það sé orðið sem ég myndi sjálfur nota. Ég hef nefnilega ákveðna fordóma fyrir orðinu „Kafkaískt“ – eða að minnsta kosti þeim skilningi sem almennt er lagður á það orðskrípi. Andúð mín á þessu orði hefur auðvitað minnst að gera með rithöfundinn Frans Kafka, sem ég hef þvert á móti miklar mætur á. Þær snúa heldur að þeirri takmörkuðu túlkun á höfundaverki Kafka sem orðið vísar yfirleitt til. Almenn notkun á orðinu virðist einkum vísa í verk á borð við Réttarhöldin eða Í refsinýlendunni; sögur sem draga fram ofríki andlitslauss og óskiljanlegs skrifræðis. Orðið hefur verið ofnýtt og gengisfellt í þessum tiltekna skilningi – sem er eftir allt einungis lítill hluti af þeim sérkennum sem gera skáldskap Kafka svo einstakan. Þannig er því slengt fram að eitthvað sé „Kafkaískt“ í samhengi við upplifun fólks af hverskyns skriffinnsku og óréttlæti – eins og má til dæmis sjá í fyrirsögninni „Kafkaískur farsi“ við nýlega frétt um að rafskutlur frá fyrirtækinu Hopp hafi verið fjarlægðar af götum Þórshafnar af yfirvöldum. Þær tilfinningar sem ég sjálfur tengi helst við Kafka eru annars eðlis, og hafa lítið að gera með tilfinningalausa búrókrata sem setja rafskutluþjónustum stólinn fyrir dyrnar. Þær snúa þeim mun heldur að ákveðnum óhug sem ég finn ætíð fyrir þegar ég les verk Kafka; óværð sem ég verð heldur var við líkamlega en andlega.

Ég man að ég sat í lestarvagni í fyrsta sinn sem ég las Hamskiptin, án efa frægasta verk Franz Kafka. Kannski var það einmitt þess vegna sem lokasena bókarinnar, þar sem hin ógæfusama Samsa fjölskylda situr saman í sporvagni, hafði svo mikil áhrif á mig. Fjölskyldan er loksins laus við vesalings Gregor og framtíðin er björt. Þau sjá sér leið út úr skuldasúpu sinni, núna þegar þau geta flutt í smærri íbúð án þess að þurfa að finna stað fyrir ófreskjuna sem elsti sonurinn hefur umturnast í, og þau hafa ákveðið að bregða sér út í sveit til að spóka sig í vorveðrinu. Dóttirin Gréta, yngri systir Gregors, sem í byrjun sögunnar er barn sem klæðist fögrum kjólum, spilar á fiðlu og nýtur áhyggjulausa lífsins sem strit bróður hennar tryggir fjölskyldunni, hefur einnig farið í gegnum ákveðna umbreytingu þegar hér er komið sögu; umbreytingu sem oft fer framhjá lesendum vegna ógnvænlegra hamskipta eldri bróður hennar. Jafnt því að Gregor tapar mennsku sinni innan í líkama skordýrsins, breytist Gréta úr barni í röggsama unga konu, sem gengst við umönnun bróður síns og tekur einnig velferð foreldra sinna sér í hönd, fær starf sem afgreiðslustúlka til að styðja fjárhag fjölskyldunnar og lærir hraðritun og frönsku á kvöldin. Í vorsólinni sem skín inn um glugga sporvagnsins virða herra og frú Samsa Grétu fyrir sér. Þau átta sig á að í erfiðleikunum sem fjölskyldan hefur gengið í gegnum hefur dóttir þeirra „blómstrað“ og er orðin „falleg og íturvaxin stúlka“. Það slær þögn á gömlu hjúin við þessa uppgötvun, og þau skiptast á „skilningsríku augnaráði“ er þeim verður ljóst að nú sé tími til kominn „að leita að góðum manni handa henni“. Á meðan á sporvagnsferðinni stendur breytist Gréta – eða líkami hennar – þannig í augum foreldra hennar í tákn fyrir bætt kjör og bjartari framtíð fyrir fjölskylduna, eða eins og segir í lokalínu sögunnar:

Þegar komið var á ákvörðunarstað fannst þeim það staðfesting sinna nýju drauma og góðu áforma að dóttir þeirra reis fyrst á fætur og teygði úr ungum líkama sínum.

Ég man að í sætinu mínu í lestinni fylltist ég miklum óhug þegar ég las þessi lokaorð í fyrsta sinn, meiri óhug en ég hafði upplifað við ítarlegar lýsingarnar á umbreytingu Gregors í pöddu, og hvernig hann skríður um veggi og loft gamla herbergisins síns og tapar smátt og smátt huga sínum fyrir dýrslegri eðlisávísun. Hinn „ungi líkami“ Grétu, sem hún teygir á í lokalínu bókarinnar, virðist á einhvern máta alls ótengdur henni sjálfri, eitthvað sem hún hefur ekki fullt vald yfir eða skilning á – eða að minnsta kosti ekki þann skilning sem foreldrar hennar lesa í hann; von um bjartari framtíð og styrkari fjárhag fyrir fjölskylduna, nú þegar elsti sonurinn, fyrirvinna heimilisins, er á bak og burt.

Frekar en hugmyndir um skrifræði og valdstjórn er það þessi beygur, tilfinning sem ég á erfitt með að setja fingur á að öðru leyti en að hún hefur eitthvað með það að gera hve viðkvæmir líkamar okkar eru og hve litla stjórn við höfum yfir örlögum þeirra, sem ætíð hefur heillað mig við verk Franz Kafka, og sem ég tengi mun heldur við það að eitthvað sé „Kafkaískt“. Vissulega er það Gregor sjálfur sem vaknar einn daginn í formi risavaxins skordýrs í rúmi sínu – bjöllu, ef marka má rithöfundinn og fiðrildasafnarann Vladimir Nabokov, sem var jú fróðari en margir um hryggleysingja – og það er Gregor sem getur ekki lengur gert sig skiljanlegan við foreldra sína og systur, sem breytist í byrði á fjölskylduna og deyr á endanum einn og yfirgefinn í læstu og tómu herbergi, en í hvert sinn sem ég les Hamskiptin er það Gréta sem ég hugsa hvað mest um þegar ég legg bókina frá mér, og sit eftir með ugg í hjarta og vangaveltur um örlögin sem bíða hennar.

En þannig er það líka með sögur Franz Kafka. Þær veita svo takmarkaða sýn af heimunum sem þær gerast í og persónunum sem þær hverfast um að lesandanum er frjálst að sjá í þeim nánast hvað sem hugurinn girnist og móta þær þannig að eigin túlkunum. Kannski er það þess vegna sem Kafka hefur lifað svo löngu og farsælu lífi í bókmenntasögunni. Enn í dag virðast skrif hans á einhvern máta endurspegla heiminn sem við búum í, en að sama skapi eru sögurnar tímalausar og lausar við hverskyns réttlæti eða siðferði eða boðskap. Þær „gerast“ fyrir persónurnar án þess að þær fái rönd við reist. Ógnin sem felst í þeim er að þrátt fyrir það hve draumkenndar þær virðast á yfirborðinu finnst manni að þær – líkt og draumar – geti gerst fyrir hvern sem er. Hvernig við svo túlkum hvað það var sem gerðist í „raun og veru“ í sögunni, það er eitthvað sem við verðum að eiga við okkur sjálf að lestri loknum.

Tengdar fréttir

Pistlar

Karlar sem lesa ekki konur

Pistlar

Tilfinningar á torgum samfélagsmiðla