Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ekki rætt um aðgerðir vegna hækkandi olíuverðs

03.06.2022 - 12:57
Mynd: RÚV / RÚV
Ríkisstjórnin hefur enn sem komið er ekki haft til skoðunar að grípa til sérstakra aðgerða vegna síhækkandi olíuverðs að sögn Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Hann bendir á að eins og staðan sé í dag standi ríkisstjórnin fyrir tugmilljarða ívilnunum fyrir vistvæna bíla.

Þetta er meðal þess sem kom fram í viðtali Bjarna við fréttastofu að loknum ríkisstjórnarfundi. Fréttamaður spurði Bjarna hvort ríkisstjórnin hyggist grípa til einhverra aðgerða til að stemma stigu við hækkun olíuverðs.

„Þetta er alþjóðleg þróun sem að sem betur fer í orkulegu tilliti er ekki að koma eins illa niður á Íslandi eins og mörgum öðrum þjóðum sem eru mun háðari aðfluttum orkugjöfum en við Íslendingar. En sérstaklega varðandi bensínverðið þá er þetta auðvitað ekki til þess að hjálpa, hvorki fyrirtækjum né heimilium, hversu mikið bensínverð hefur hækkað. En þetta er bara hrein afleiðing af verðþróun á alþjóðlegum mörkuðum. Opinber gjöld hafa ekki verið að halda í við verðlag, þannig að í þeim skilningi höfum við í raun og veru eiginlega verið með skattalækkun undanfarin ár,“ sagði fjármálaráðherra og bætti við að fólk sæi þegar það kaupi rafmagnsbílinn að engin aðfluttningsgjöld séu tekin, auk þess sem stór hluti virðisaukaskattsins sé endurgreiddur.

„Við erum ekki enn byrjuð að taka gjöld fyrir notkun á vegakerfinu en það verður að fara að breytast.“ 

Stormur í vatnsglasi

Næst var Bjarni spurður um ágreining sem komið hefur upp í ríkisstjórn og tengist frumvarpi Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra um endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar.

„Þessi svokallaði ágreiningur snýst í raun og veru bara um staðreyndir. Að hálfu fjármálaráðuneytisins hefur verið bent á það að fjárlagaliðurinn sem allar greiðslurnar þurfa að koma af, hann gerir ekki ráð fyrir þessum útgjöldum. Þá dugar ekkert að segja að fjármálaráðuneytið bara hefði átt að redda því. Við erum búin að leggja fyrir þingið fjármálaáætlun sem að tekur tilliti til allra ráðuneyta og er afgreitt frá ríkisstjórninni sem heildarskjal. Við erum með okkar tekjuáætlun og erum með okkar útgjaldaáætlun. Hún lítur svona út eins og fjármálaáætlunin segir. Þannig að í mínum huga er þetta stormur í vatnsglasi, vegna þess að það á í sjálfu sér ekki að vera neitt tilefni og efni í ágreining um staðreyndir.“

Spurður um hvort það standi þá til að breyta áætluninni sagði Bjarni að það yrði ekki gert án þess að það hæfi áhrif á afkomu ríkissjóðs, sem væri ekki gott.

Sjá má á viðtalið við Bjarna í heild sinni í spilaranum hér að ofan.