Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Biden ávarpar þjóð sína vegna skotárása – „Nóg komið!“

President Joe Biden speaks about the latest round of mass shootings, from the East Room of the White House in Washington, Thursday, June 2, 2022. Biden is attempting to increase pressure on Congress to pass stricter gun limits after such efforts failed following past outbreaks. (AP Photo/Evan Vucci)
 Mynd: AP - RÚV
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, ávarpaði bandarísku þjóðina í dag í tilfinningaþrunginni ræðu. Hann ítrekaði ákall til löggjafans um að herða skotvopnalög í landinu og minnti á fórnarlömb mannskæðra skotárása á síðustu vikum.

„Fyrir börnin sem enn er hægt að bjarga“

Forsetinn sagði nóg komið. Nú yrði að grípa til aðgerða fyrir börnin sem þjóðin hefði misst, fyrir börnin sem enn væri hægt að bjarga og fyrir þeirra ástkæru þjóð. „Heyrum kallið. Grípum augnablikið og gerum loksins eitthvað“ sagði forsetinn. 

Fleiri börn hafa dáið í skotárásum en lögreglumenn

„Síðustu tvo áratugi hafa fleiri börn látist af völdum skotvopna en lögreglumenn og hermenn í sinni vinnu. Veltið því fyrir ykkur,“ sagði forsetinn. Hann sagði að byssur hefðu breytt skólum og sjúkrahúsum í landinu í vígvelli.

Biden lagði í ræðu sinni áherslu á bann við hríðskotabyssum og sagði að það væri lágmarkskrafa til þingsins að byssukaupaaldur yrði hækkaður úr 18 árum í 21. Hann kallaði einnig eftir því ítarlegri bakgrunnsathugun við byssukaup, hertum reglum um geymslu skotvopna og að skotvopnaframleiðendur yrðu kallaðir til ábyrgðar í auknum mæli.

Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna, flutti einnig ávarp í kvöld og sagði þingið yrði að bregðast við. Nóg væri komið af afsökunum og nú væri tími aðgerða. Dómsmálanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjanna hittist á fundi í kvöld til að ræða frumvarp um breytingar.