Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Vill lögleiða jafnaðarkaup

02.06.2022 - 12:43
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Formaður Atvinnufjelagsins, félags einyrkja, lítilla og meðalstóra fyrirtækja segir óréttlátt að hlutastarfsmenn fái hærri laun fyrir kvöld- og helgarvinnu og vill að lögleitt verði jafnaðarkaup. Verkalýðshreyfingin segir hugmyndina slæma og að hún komi ekki til greina.

 

Verkalýðshreyfingin undirbýr kröfur sínar fyrir komandi kjaraviðræður en samningar verða lausir í október.  Sigmar Vilhjálmsson formaður Atvinnufjelagsins vill að dagvinnutaxtinn verði hækkaður og að fyrstu 8 klukkutímarnir teljist dagvinna, sama á hvaða tíma sólarhrings vinnan er unnin.

„Fólk þekkir jafnaðarkaup. Þetta er bara að lögleiða jafnaðarkaup, það er það sem við erum að horfa á. Ástæðan í grunninn er sú að það er gríðarlegur munur á dag og helgar og kvöldtaxta. Munurinn er hvergi meiri bara í Evrópu". Hann segir að fyrir vikið sé erfiðara að hækka laun dagvinnufólks. Þá sé það of dýrt að borga kvöld og helgartaxta. Hann segir að lítil og meðalstór fyrirtæki borgi ekki lágmarkslaun, samkeppnin um starfsfólk geri það að verkum. „Það eru nefnilega sveitarfélögin sem eru að borga þessi lágmarkslaun", segir Sigmar Vilhjálmsson.
 
Hann segir að öllum fyrirtækjum beri samkvæmt lögum að skrá sig í félag en að á því sé mikill misbrestur. „Ef þau eru ekki skráð í neitt félag að þá ber þeim samkvæmt lögum að fylgja kjarasamningum Samtaka atvinnulífsins". Sigmar segir að stórfyrirtækin fari með völdin innan samtaka atvinnulífsins á kostnað minni fyrirtækjanna sem eru með um 70% launafólks í vinnu. En eru hugmyndirnar settar fram til þess að draga úr launakostnaði?  "Bara alls ekki aðeins að jafna út hvernig laun eru greidd. Laun fólks sem vinnur dagvinnu munu hækka".    

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR er ekki hrifinn af hugmyndum Sigmars. Hann segir að þetta séu ekki nýjar hugmyndir. „Reynsla verkalýðshreyfingarinnar af svona tilfærslum er slæm og kemur ekki til greina af okkar hálfu að hræra í þessu frekar. Hann segir að tíminn um helgar sé mikilvægari og verðmætari fyrir börn og fjölskyldur.
Ragnar segir að tíminn um helgar sé mikilvægari og verðmætari fyrir börn og fjölskyldur. „Þetta er í sjálfu sér vegferð sem ég veit að kemur ekki til greina að okkar hálfu að fara og félaga okkar í verkalýðshreyfingunni.
 

 

Arnar Björnsson