Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Risastór dagur í sögu Akureyrar“

02.06.2022 - 15:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Niceair fór í sína fyrstu áætlunarferð frá Akureyri til Kaupmannahafnar í morgun. Bæjarstjórinn á Akureyri segir þetta stóran dag í sögu bæjarins og framkvæmdastjóri Niceair segir erfitt að lýsa tilfinningunni.

Óvenjumikil spenna við innritunarborðið

Það var óvenjumikil spenna við innritunarborðið á Akureyrarflugvelli upp úr sex í morgun og farþegarnir afar ánægðir með brottfararspjöldin sín, tilbúnir í þetta jómfrúarflug Niceair til Kaupmannahafnar.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson

Mikil áhrif á atvinnulífið og samfélagið

„Þetta er risastór dagur í sögu Akureyrar að fyrsta flugfélagið með heimavöll á Akureyri tekur á loft á nýjan áfangastað,“ sagði Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, í ávarpi. „Og ég vil óska okkur öllum innilega til hamingju. Það þarf ekki að fjölyrða hversu mikil áhrif þetta hefur á atvinnulífið og samfélagið hér á Akureyri og hversu mikið þetta breytir lífsgæðum íbúanna.“

Þægilegt að geta stigið beint um borð á Akureyri

Farþegarnir áttu ýmis erindi til Kaupmannahafnar og þó flestir hafi bara ætlað að eiga gott frí og rólega daga í Kaupmannahöfn, ætluðu aðrir að nýta sér tengiflug þaðan til annarra flugvalla. Allir voru sammála um hve þægilegt það væri að geta stigið beint upp í vélina á Akureyri og fannst líklegt að utanlandsferðirnar yrðu fleiri þess vegna.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson

„Ofboðslega góð tilfinning“

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri og einn af stofnendum Niceair, var ekki minna spenntur en farþegarnir. „Það er erfitt að lýsa því. Þetta var stutt atlaga, en við erum  auðvitað komin hingað í dag fimm mánuðum síðar. Og það er ofboðslega góð tilfinning og vitanlega er ég spenntur.“

Reksturinn framar væntingum

Einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir á Norðurlandi eru hluthafar í Niceair og Þorvaldur fullyrðir að þetta sé norðlenskt hlutafélag. „Já, við erum það. Ég myndi segja að þetta sé eins nálægt því að vera samvinnufélag eins og kaupfélagið var.“ Reksturinn hafi farið af stað samkvæmt áætlun og vel það. „Þetta er heldur framar væntingum og það hafa ekki verið mörg ljón í veginum sem ekki hefur verið hægt að vega hingað til.“