Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Lilja gagnrýnir fjármálaráðuneytið harðlega

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Menningarmálaráðherra gagnrýnir harðlega athugasemdir fjármálaráðuneytisins við frumvarp um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar. Ráðherra segir skeytasendingar í fjölmiðlum ekki boðlegar.

Kvikmyndagerðarfólk fær hærri endurgreiðslu samkvæmt frumvarpi menningar- og viðskiptamálaráðherra sem ríkisstjórn afgreiddi fyrir hálfum mánuði. Fjármálaráðuneytið gagnrýnir að frumvarpið sé ófjármagnað og samráð hafi skort við samningu þess.

„Gjaldaliðurinn sem í þessu tilviki er vistaður í þessu fagráðuneytinu, hann gerði ekki ráð fyrir útgjöldunum sem myndi reyna á ef frumvarpið yrði samþykkt. Það var ekki tekið tillit til þess í greinargerð með frumvarpinu eins og það fór í gegnum ríkisstjórn. Þar vakti ég reyndar athygli á því sko,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. 

Hvað finnst þér um þessa gagnrýni fjármálaráðuneytisins á frumvarpið þitt?

„Hún er að mínu mati mjög ómakleg. Og ég gagnrýni harðlega fjármála- og efnahagsráðuneytið fyrir þessa umsögn. Í fyrsta lagi, þá er það þannig að það er eins og þau átti sig ekki á þjóðhagslegum ábata sem kemur vegna frumvarpsins. Ég nefni sem dæmi: Árið 2020 var velta í kvikmyndaiðnaði um 30 milljarðar. Endurgreiðslur voru 2,4 milljarðar. Það kemur mikla meira inn til landsins en fer út,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptamálaráðherra. 

„Fjármálaráðuneytið er bara að vekja athygli á því - er ekki með neinar efnislegar athugasemdir við þetta mál - bara vekja athygli á því að útstreymi til þess að endurgreiða kvikmyndaframleiðendum mun stöðvast á því að það verða ekki fjárheimildir á fjárlagaliðnum,“ sagði Bjarni.

„Það er kveðið á um að við ætlum að fara í þessa aðgerð í stjórnarsáttmálanum. Þannig að ég gagnrýni fjármála- og efnahagsráðuneytið harðlega fyrir að hafa ekki gert ráð fyrir þessu. Það er þeirra að koma með fjárheimildir,“ segir Lilja.

„Ég er reyndar í engum vafa um að fjárlagaliðurinn er ófullnægjandi,“ sagði Bjarni.

Nú gerðir þú athugasemdir við bankasöluna á sínum tíma, sem beindist þá gegn fjármálaráðherra. Heldur þú að hann sé á einhvern hátt að launa fyrir sig með þessu?

„Ég hef enga trú á því,“ segir Lilja. 

Ríkisstjórnarsamstarfið, hvernig er það þessa dagana?

„Ja, mér hefur fundist það hafa verið ágætt. Ég held hins vegar að það sé ekki boðlegt að það séu svona skeytasendingar á milli í fjölmiðlum. Ég segi það,“ segir Lilja.