Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Fylgi Vinstri grænna ekki verið minna frá 2013

02.06.2022 - 19:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stuðningur við ríkisstjórnina heldur áfram að minnka, samkvæmt nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup. Fylgi Vinstri grænna á landsvísu hefur ekki mælst minna síðan í aðdraganda alþingiskosninga 2013. Flokkurinn hefur tapað meira en þriðjungi af fylgi sínu frá síðustu kosningum. 

Könnunin var gerð dagana 2.-31. maí. Fylgi Vinstri grænna breytist mest á milli kannana og heldur áfram að minnka. Flokkur fólksins tapar einnig fylgi en aðrir standa að mestu í stað frá síðustu könnun. 

Töluvert hefur mætt á Vinstri grænum í liðnum mánuði vegna flóttamannamála, sem hugsanlega skýrir fylgistapið. Flokkur fólksins var í fréttum eftir að Tómas A. Tómasson, þingmaður flokksins, tjáði sig um umdeilt skjáskot sem gekk manna á milli á samfélagsmiðlum. 

Sjálfstæðisflokkur og VG tapa fylgi frá síðustu kosningum

Sjálfstæðisflokkurinn mælist enn stærstur, með 20,1%, en flokkurinn fékk 24,4% í kosningunum.

Framsókn bætir við sig frá síðustu könnun tveimur prósentustigum, og mælist nú með svipað fylgi og í kosningunum, 17,5%.

Píratar mælast með tæp 14,7%, Samfylking 14,1%, og Viðreisn 9,5%.

Einungis 8,1% segjast myndu kjósa Vinstri græn ef kosið væri nú, sem er um tveimur prósentustigum minna en í síðustu könnun, og  4,5% minna en í VG fékk í síðustu kosningum. Fylgi VG hefur ekki mælst minna í níu ár. 

6,4% segjast myndu kjósa Flokk fólksins, en tæp 8% í síðustu könnun. Sósíalistaflokkur Íslands mælist með 5% og Miðflokkurinn 4,3%. Rúmlega 7% taka ekki afstöðu og 8% segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa.
 
Stuðningur við ríkisstjórnina mælist nú rúm 44%, sem er um þremur prósentustigum minna en í síðasta mánuði. 

Mynd með færslu
 Mynd: Gallup - RÚV
alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV