Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Ekki megi „slátra mjólkurkúnni“ í nafni sóttvarna

Mynd með færslu
 Mynd: Landspítalinn
Viðskiptaráð segir mikilvægt að taka tillit til fleiri en faraldurs- og læknisfræðilegra þátta við mat á sóttvarnaraðgerðum. Sóttvarnaaðgerðir, þótt nauðsynlegar séu, hafi efnahagslegar afleiðingar sem geti varað í ár og áratugi, með tilheyrandi áhrifum á lífskjör almennings.

Þetta kemur fram í umsögn Viðskiptaráðs Íslands við drög að frumvarpi heilbrigðisráðherra, Willums Þórs Þórssonar, til sóttvarnarlaga. Ráðið telur ástæðu til að staldra sérstaklega við ákvæði frumvarpsins og umfjöllun um farsóttanefnd, aðkomu Alþingis að ákvarðanatöku um sóttvarnaaðgerðir og til hvaða sjónarmiða beri að líta við beitingu sóttvarnalaga.

Í frumvarpinu er meðal annars fjallað um samfélagslega hættulega sjúkdóma, það er alvarlegan sjúkdóm sem getur meðal annars leitt til verulega aukins álags á heilbrigðiskerfið verði hann útbreiddur í samfélaginu. Í greinargerð frumvarpsins segir að um sé að ræða alvarlegustu smitsjúkdóma sem geti herjað á samfélög og að sú skilgreining eigi við um COVID-19 sjúkdóminn.

Viðskiptaráð bendir á að Covid-19 hafi valdið íslensku samfélagi miklum skakkaföllum, eins og annars staðar. Aftur á móti hafi verið afar skiptar skoðanir á aðgerðum stjórnvalda í tengslum við faraldurinn. Viðskiptaráð hafi sem og fleiri fyrirtæki og hagsmunasamtök bent á að ekki „mætti slátra mjólkurkúnni“.

Þúsund milljarða uppsafnaður halli 2020 til 2027

Staðreyndin sé því miður sú að áætlaður uppsafnaður halli á árunum 2020 til 2027 sé rúmlega þúsund milljarðar króna. Hallinn sé meðal annars tilkominn vegna þeirra efnahagslegu afleiðinga sem faraldurinn orsakaði, þar á meðal sóttvarnaraðgerðir. Þegar öllu sé á botninn hvolft sé það atvinnulífið; fyrirtækin, frumkvöðlarnir og einstaklingarnir sem skapi verðmætin.

„Þessi verðmæti eru skattlögð og þeim síðan ráðstafað í mörg brýn, og önnur ekki eins brýn, opinber verkefni. Meðal þeirra mikilvægu er rekstur heilbrigðiskerfisins. Almenn afkastageta þess og möguleg meðferðarúrræði hverju sinni eru í beinu samhengi við það hvort nægt fjármagn sé fyrir hendi,“ segir í umsögn Viðskiptaráðs.

Það blasi við að fjárþörf heilbrigðiskerfisins fari ekki minnkandi, nema eitthvað annað komi til. Með því að draga blóðið úr atvinnulífinu, sé jafnframt dregið úr þrótti heilbrigðiskerfisins. Besta leiðin til að tryggja fullnægjandi getu heilbrigðiskerfisins til skemmri og lengri tíma sé því að gæta að því að atvinnulífið blómstri. Þannig verði meira til skiptanna. Því beri að taka tillit til fleiri en faraldurs- og læknisfræðilegra þátta við mat á sóttvarnaaðgerðum.

Vilja efnahagssérfræðing í farsóttarnefnd 

 

Í frumvarpinu er lagt til að farsóttanefndar verði skipuð níu einstaklingum og hún taki að nokkru leyti við verkefnum sóttvarnalæknis samkvæmt gildandi lögum, þ.e. að koma með tillögur til ráðherra um beitingu veigamestu opinberu sóttvarnaráðstafanna. Markmiðið með tilkomu farsóttanefndar sé að færa verkefni og ábyrgð sem þessu fylgir yfir á fleiri hendur með breiðari þekkingu og skírskotun.

 

Viðskiptaráð telur nauðsynlegt að hafa þann varnagla að sóttvarnayfirvöld ein geti ekki tekið ákvarðanir sem hafa víðtækar og langvarandi afleiðingar nema Alþingi eigi aðkomu að þeim. Mikilvægt sé því að velferðarnefnd þingsins verði ekki einungis upplýst, heldur geti íþyngjandi ákvarðanir sóttvarnayfirvalda ekki tekið gildi ef velferðarnefnd er mótfallin þeim.

Af sömu ástæðum sé brýnt að tryggja með lögum aðkomu fulltrúa að farsóttanefnd sem hafi efnahagslega skírskotun. Viðkomandi þurfi að hafa atkvæðisrétt fyrir nefndinni. Gæta þurfi að allir mikilvægir hagsmunir séu skoðaðir þegar teknar séu ákvarðanir sem hafi afleiðingar til langrar
framtíðar.