Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Krabbameinsfélagið afturkallar 450 milljóna styrkboð

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Krabbameinsfélag Íslands hefur dregið til baka 450 milljóna króna styrk til Landspítalans sem ætlaður var nýrri dagdeild blóð- og krabbameinslækninga. Sett var skilyrði fyrir fjárveitingunni á aðalfundi félagsins í fyrra að stjórnvöld gengju fram í að leysa vanda deildarinnar. Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins, segir að stjórnvöld hafi hingað til hvorki  sýnt verkefninu  áhuga né sett það í farveg. 

Flestir fá lyfjameðferð á blóð- og krabbameinsdeild en Krabbameinsfélagið hefur lýst yfir þungum áhyggjum af aðstöðuleysi deildarinnar í langan tíma.

Aðstaðan algerlega óviðunandi 

„Aðbúnaður á deildinni er algjörlega óviðunandi bæði fyrir starfsfólk og sjúklinga og aðstandendur þannig það er rosalega brýnt að leysa þann vanda. Spítalinn átti sjálfur hugmynd að lausn á sínum tíma og við vorum tilbúin að leggja þennan pening til, sem nam um einum þriðja af kostnaði við að koma upp nýrri deild ef að það yrði bara farið í það núna.“  

Fyrstu viðbrögð sjö mánuðum síðar

Halla segir að eftir ítrekun frá félaginu hafi einu svörin frá stjórnvöldum verið þau að unnið væri að greiningu á hlutverki spítalans til framtíðar og þarfagreiningu á húsnæði spítalans. Það svar barst um sjö mánuðum eftir að fjárveitingin var samþykkt. 

„Við erum búin að kynna þetta mjög víða fyrir öllum ráðamönnum. Viðbrögðin hafa í raun og veru ekki verið nein fyrr en við fengum skriflegt svar sem má ekki skilja öðruvísi en svo en nei takk þó að það hafi ekki verið sagt með beinum orðum. “

Á aðalfundi Krabbameinsfélagsins sem haldinn var 21. maí síðastliðinn var því ákveðið að fella úr gildi samþykkt um fjárveitinguna. Samþykktin hefur verið send heilbrigðisráðherra til upplýsingar með afriti til fjármálaráðherra, velferðarnefnd Alþingis, forstjóra Landspítala, Landlæknis og formanns stýrihóps um nýjan Landspítala. Fjármunirnir verða nýttir í önnur verkefni félagsins, en að sögn Höllu er nóg af verkefnum sem bíða.

Mynd með færslu
 Mynd:
Halla Þorvaldsdóttir, formaður Krabbameinsfélagsins.