Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Fjármálaráðuneytið gagnrýnir kvikmyndafrumvarp Lilju

01.06.2022 - 21:50
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett - RÚV
Fjármálaráðuneytið gagnrýnir í bréfi til atvinnuveganefndar frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningarráðherra um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar. Það sé ófjármagnað og samráð hafi skort við samningu þess.

Lilja kynnti frumvarpið og það var afgreitt úr ríkisstjórn um miðjan maí. Það felur í sér að hlutfallið af kostnaði við kvikmyndagerð hérlendis sem ríkið endurgreiðir hækkar úr 25 prósentum í 35 séu verkefnin stór í sniðum. Þar er gerð krafa um að framleiðslukostnaður hér sé yfir 200 milljónir, tökudagar hér að minnsta kosti 30 og starfsfólkið að minnsta kosti 50.

Atvinnuveganefnd Alþingis tekur málið fyrir á morgun og fær á fund til sín gesti frá Viðskiptaráði og fjármálaráðuneytinu. Í aðdraganda fundarins sendi ráðuneytið nefndinni bréf þar sem bent er á „nokkra vankanta á frumvarpinu“.

Ekkert samráð og ekkert fjármagn

Þar kemur meðal annars fram að það sé ófjármagnað, bæði á yfirstandandi ári og á tíma fjögurra ára fjármálaáætlunar og engar fjárheimildir til staðar til að mæta því.

Þótt bent sé á það í frumvarpinu að í fjármálaáætlun hækki fjárheimildin um 300 milljónir varanlega þá sé það til að bregðast við veikleikum í núverandi kerfi, en dekki ekki fyrirhugaða hækkun á endurgreiðsluhlutfallinu.

Ráðuneytið bendir einnig á að það hafi aðeins fengið þrjá daga til að fara yfir frumvarpið, en yfirleitt sé gert ráð fyrir tveimur vikum í slíkt verk.

Enn fremur hafi verið skipaður starfshópur til að vinna frumvarpið, en vegna þess að því hafi verið flýtt hafi það alfarið verið unnið í menningar- og viðskiptaráðuneytinu, en ekki í því samstarfi sem til hafi staðið.

 

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV