Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Fagnaðarefni að þjóðirnar bætist í félagsskapinn

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir mikla hagsmuni í húfi með aðild Finnlands og Svíþjóðar að NATO. Hún mælti fyrir því í dag að þingið veiti ríkisstjórninni heimild til að staðfesta, fyrir hönd Íslands, fyrirhugaða viðbótarsamninga við NATÓ um aðildina.

Fundur hófst á Alþingi klukkan þrjú á umræðu um störf þingsins. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra mælti síðan fyrir þingsályktunartillögu sinni um staðfestingu viðbótarsamninga við Norður - Atlantshafssamninginn um aðild Finnlands og Svíþjóðar.

Tillögunni verður síðan vísað til umfjöllunar í utanríkismálanefnd. Þingflokksformenn hittust á fundi í hádeginu til að ræða afgreiðslu mála og þeir munu funda aftur síðar í dag.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, tók til máls á þingi þar sem hann sagði flokkinn styðja tillöguna og vilji greiða fyrir því að umsóknin verði afgreidd hratt og örugglega.

„Enda er það fagnaðarefni að þessar þjóðir bætist í þennan félagsskap,“ sagði Logi.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði á þingi ráðherra hafa ótvíræðan stuðning Viðreisnar. Þá hvatti hún ráðherra til að gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að hægt verði að hraða því að Georgía og Moldóva fái einnig inngöngu inn í bandalagið.

Spurði hvort ríkisstjórnin væri einhuga

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, tók til máls og spurði hvor ríkisstjórnin væri einhuga um mikilvægi þess að Finnland og Svíþjóð verði aðilar að bandalaginu. Í svari sagði Þórdís Kolbrún ríkisstjórnina vera einhuga um að styðja aðild Finna og Svía til þeirra sjálfsákvörðunarréttar að óska eftir aðild að Atlantshafsbandalaginu, það sé enginn ágreiningur um það.

Öll ríki sem eiga aðild að Atlantshafsbandalaginu hafa tekið vel í umsóknir Finna og Svía, að undanskildu Tyrklandi. Í síðustu viku áttu sendinefndir Finna og Svía fund með fulltrúum Tyrklandsstjórnar til að ræða andstöðu Tyrkja við inngöngu þeirra.