Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Einstakt mál og sögulegt í íslenskri réttarsögu

01.06.2022 - 14:09
Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Dósent í lögfræði segir rannsókn lögreglu á andláti karlmanns fyrir tæpum fimmtíu árum einstaka og að það yrði sögulegt í íslenskri réttarsögu ef málið kæmi til kasta dómstóla. Líkamsleifar mannsins voru grafnar upp á Vestfjörðum um síðustu helgi.

Fréttastofa greindi frá því að rannsókn væri hafin á andláti Kristins H. Jóhannessonar, sem lést nítján ára gamall árið 1973, eftir umferðarslys í Óshlíð við Bolungarvík. Tveir aðrir voru í bílnum, bílstjóri og annar farþegi, sem bæði eru á lífi í dag. 

Taka skal fram að þeir hafa ekki réttarstöðu sakbornings í málinu, en rannsóknin snýr að því hvort slysið gæti hafa atvikast með öðrum hætti en talið var í upphafi. Líkamsleifar hins látna voru grafnar upp á föstudag þar sem ekki var talin þörf á réttarkrufningu á sínum tíma og fjölskylda mannsins hefur verið gagnrýnin á hversu lítið málið hafi verið rannsakað. 

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er þetta í fyrsta sinn sem líkamsleifar eru grafnar upp í sambærilegu máli og rannsóknin því fordæmalaus. 

„Við erum með dæmi um það að sekt hafi verið snúið í sýknu, Guðmundar- og Geirfinnsmálin eru gott dæmi um gömul mál sem eru endurupptekin og snúið við,“ segir Sindri M. Stephensen, dósent í lögfræði við Háskólann í Reykjavík. 

Refsiverður verknaður sem varði ævilöngu fangelsi fyrnist aldrei.

„Þetta mál, miðað þær upplýsingar sem ég hef, að þá var þetta rannsakað sem slysamál eins og sakamálalöggjöf gerir ráð fyrir, en við síðara tímamark að þarna eru komnar einhverjar vísbendingar. Og það getur vel verið að leiði ekki til neins og það verður að hafa það í huga. En ef þær vekja upp grunsemdir um að eitthvað refsivert athæfi hafi átt sér stað að þá gefur það tilefni til þess að mál sé rannsakað frekar síðan vísað á ákærusvið. Þá er hægt að gefa út ákæru ef sakborningur er í því tilviki á lífi. Og síðan er það mat dómstóla hvort sektin sannist með þeim sönnunargögnum sem hægt er að afla eða leidd í ljós.“

Það sé hins vegar erfitt að segja til um enda sé þetta mál það fyrsta sinnar tegundar.

„Þetta er einstakt mál,“ segir Sindri. „Þetta yrði sögulegt í íslenskri réttarsögu.“

Fjallað var rannsókn málsins í fréttum RÚV í vikunni og umfjöllunina er að finna hér fyrir neðan. Viðtalið við Sindra M. Stephensen er í spilaranum efst í fréttinni.

Mynd: Timarit.is / RÚV