Mjög erfitt ástand
Í gær var full biðstofa á bráðamóttöku Landspítalans, hátt í hundrað sjúklingar voru skráðir á deildina, þar af þrjátíu og þrír sem ættu að vera á öðrum deildum sem allar voru yfirfullar. Meira en fimm klukkustunda bið var í sumum tilfellum eftir þjónustu. Helga Rósa Másdóttir, deildarstjóri á bráðamóttöku, segir að staðan sé vægast sagt mjög erfið.
„Þetta eru hundrað sjúklingar á deildinni í 30 meðferðarstæðum. Þannig að þú getur ímyndað þér ringulreiðina og óreiðuna, kaosið og álagið sem því fylgir.“
- Er þetta boðlegt ástand? „Algjörlega engan veginn.“
Hefur áhyggjur af sumrinu
Bráðahjúkrunarfræðingur sem sagði upp störfum í gær sagði í samtali við fréttastofu í morgun að bót og betrun hafi lengi verið lofað en án árangurs. Hún segir að hjúkrunarfræðingar á deildinni séu komnir með nóg. Helga segir að fjórar uppsagnir hafi borist deildinni í gær og í dag.
„Það er erfitt að fá þær ofan í erfiða stöðu þar sem mannekla er mikil og sjúklingafjöldinn gríðarlegur. Okkur munar um hvern einasta haus þannig að það er mjög vont að missa þessa hjúkrunarfræðinga.“
- Hefurðu áhyggjur af frekari uppsögnum? „Já.“
Tíu uppsagnir hjúkrunarfræðinga tóku gildi í mars og síðan þá hefur ekki verið unnt að reka bráðamóttökuna í sömu mynd.
„Við getum í rauninni ekki haft sjúklinga á öllum svæðum deildarinnar því ég hef ekki mannskap til að vakta svona stórt svæði þannig að það hefur þegar haft áhrif.
- Hefurðu áhyggjur af því að manna deildina í sumar? „Já, bara mjög miklar.“
Bráðamóttakan birtingarmynd víðtæks vanda
Helga segir að flestallur niðurskurður í heilbrigðiskerfinu bitni að lokum á bráðamóttökunni. Vandinn sé því víðtækur.
„Það er ekkert vandamál á bráðamóttökunni hvernig við tökum á móti eða sinnum veiku fólki heldur er þetta kannski oft óviðeigandi verkefni sem að við erum að sinna, bæði þá sem koma til okkar frá öðrum stofnunum vegna þess að þau ráða ekki við sitt hlutverk. Síðan að deildirnar uppi í húsi geta ekki tekið við sjúklingum sem þurfa að leggjast inn af því að þær koma ekki frá sér sjúklingum.“