Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Kenna hvorir öðrum um ringulreiðina

Mynd: EPA-EFE / EPA

Kenna hvorir öðrum um ringulreiðina

30.05.2022 - 17:44
Ringulreiðin fyrir utan Þjóðarleikvanginn í París fyrir úrslitaleik Liverpool og Real Madrid í Meistaradeild Evrópu í fótbolta á laugardagskvöld ætlar að draga dilk á eftir sér.

Frönsk yfirvöld kenna umfangsmiklu aðgöngumiðasvindli um - þúsundir falsaðra miða hafi verið í umferð og mannfjöldinn sem vildi komast á völlinn með góðu eða illu miklu meiri en áhorfendasvæðin réðu við.

Hreint ofbeldi

Bresk yfirvöld, borgarstjórn Liverpoolborgar, forráðamenn Liverpool liðsins og aðdáendur segja viðbrögð og framkomu frönsku lögreglunnar hafa verið skammarlega og einkennst af fumi, fáti og hreinu ofbeldi. 

Rauðklæddir í þúsundatali

Stuðningsmenn Liverpool voru fullir tilhlökkunar fyrir leik Real Madrid og Liverpool á laugardag. Tugþúsundir höfðu lagt leið sína rauðklæddir til Parísar og mikið stuð var á svokölluðum aðdáendasvæðum allan laugardaginn þar sem aðdáendur dönsuðu og sungu, og sumir drukku bjór og annan.

Falsaðir miðar í umferð

Flestir voru með gildan aðgöngumiða sem kostaði sitt. Aðrir voru í góðri trú með miða upp á vasann sem þeir höfðu keypt dýrum dómum, en voru falsaðir. Enn aðrir með með miða sem þeir vissu að voru falsaðir og svo einhverjir með engan miða en ætluðu að freista þess að komast yfir miða á síðustu stundu eða hreinlega svindla sér inn.

Ekki allt með felldu

Það var ljóst hálftíma fyrir leik að ekki var allt með felldu utan við leikvanginn. Stór svæði Liverpoolmegin á vellinum voru auð. Leiknum var frestað fyrst um 15 mínútur og svo um hálftíma og opinbera skýringin var sú að Liverpool aðdáendur hefðu mætt of seint á völlinn.

Algjörlega óviðbúnir

Reyndin var önnur. Langflestir komu tímanlega, einum og hálfum til tveimur og hálfum tíma fyrir leik. Þar á meðal fjölskyldufólk með börn. En lögreglan og starfsmenn vallarins voru algerlega óviðbúnir þessum fjölda og gerðu, að sögn fjölmargra á vettvangi, þar á meðal frétta- og blaðamanna frá BBC og Guardian, engan greinarmun á þeim sem voru sannanlega með gilda miða og hinna. 

Biðraðir breyttust í öngþveiti

Allt stóð fast, biðraðir urðu feikilangar uns þær hættu að vera biðraðir en breyttust í kös af fólki. Ástandið varð síðan hættulegt þegar nær dró leik, þrengslin jukust og örvæntingin um að komast ekki inn varð meiri og meiri. Lögreglan beitt piparúða og kylfum.

Skemmtunin og gleðin breyttist í grátur og gnístran tanna.  Liverpoolaðdáendur eru sárir og reiðir. Finnst þeir hafa verið sviknir og fallast alls ekki á að þeir séu sökudólgarnir eins og þeim finnst frönsk stjórnvöld ýja að í skýringum sínum. 

Kenna fölsuðum miðum um 

Innanríkisráðherra Frakklands Gérald Darmanin og íþróttamálaráðherrann Amélie Oudéa-Castéra hafa kennt tug þúsundum aðdáenda með falsaða miða um ringulreiðina, en einnig að frönsk unglingagengi hafi hellt olíu á eldinn með því að blanda sér inn í hópinn, klifra yfir girðingar og æst þannig liðið upp.

Komu í veg fyrir dauðsföll

Franska lögreglan hafi, þrátt fyrir einhver vandræði með að stjórna, tekið réttar ákvarðanir og komið í veg fyrir dauðsföll og alvarleg meiðsl. Castéra bendir einnig á muninn á hvernig Real Madrid stýrði sýnu stuðningsfólki svo til áfallalaust inn á völlinn á sitt svæði án falskra miða. 

Svívirðileg meðferð

Lögreglumenn frá Liverpool fylgdu fylgismönnum Liverpool í París og þeir segja að langflestir hafi verið til fyrirmyndar og mætt tímanlega á völlinn. 

BBC ræðir við Tom Whitehurst sem ætlaði að sjá leikinn með fötluðum syni sínum. Hann þurfti að að beita öllu sínu til þess að koma sér og syni sínum í skjól efir að hafa verið spreyjaðir í andlitið af frönsku lögreglunni. Hann segir að meðferðin sem áhorfendur hafi fengið hjá lögreglunni hafi verið svívirðileg.

Enginn greinarmunur hafi verið gerður á heiðarlegu fólki með gilda miða og þeim sem voru það ekki. Lögreglan réðst með ofbeldi á fólk sem mætti samviskusamlega nokkrum tímum fyrir leik og beið kurteist eftir að komast inn. 

Bretar krefjast rannsóknar 

Bresk stjórnvöld hafa krafist rannsóknar á atburðunum á laugardagskvöld og haft er eftir Boris Johnson forsætisráðherra Breta að hann sé í miklu uppnámi og áhyggjufullur. Castéra íþróttamálaráðherra Frakklands boðaði í dag til fundar með innanríkisráðherra, frönsku lögreglunni, evrópska og franska knattspyrnusambandinu og fleirum til að fara yfir málin.

Efast um að Frakkar ráði við stóra viðburði

Margir hafa lýst yfir efasemdum um að Frakkar hafi burði eða kunnáttu í skipulagningu og mannfjöldastjórnun til þess að halda Heimsmeistaramótið í rugby á næsta ári og Sumarólympíuleikana 2024. Castéra vísar því á bug en segir að allir verði að læra sína lexíu eftir atburði laugardagskvöldsins.  

 

Tengdar fréttir

Fótbolti

Real Madrid er Evrópumeistari eftir sigur á Liverpool

Fótbolti

Hættulegar aðstæður fyrir utan Stade de France