Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Ekki víst að meiri byggingakostnaður þýði dýrari íbúðir

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Þó svo að mikil hækkun hafi orðið á byggingaefnum er ekki sjálfgefið að það leiði til hækkunar á íbúðaverði. Forstöðumaður hagfræðideildar Landsbanka telur að íbúðaverð hafi náð einhvers konar þolmörkum og að það hægi á verðhækkunum á íbúðum.  

Verð á aðföngum fyrir byggingariðnað hefur í sumum tilfellum margfaldast á síðustu mánuðum. Verð á stáli hefur fjórfaldast á skömmum tíma. Þá hefur verð á kopar og timbri hækkað mikið, samkvæmt úttekt Samtaka iðnaðarins. Þessar hækkanir hafa mikil áhrif á byggingarkostnað. Mörg þeirra sem leita sér að húsnæði til kaups í fyrsta sinn eiga í erfiðleikum með að finna íbúð á viðráðanlegu verði, svo mikið hefur fasteignaverð hækkað. En þýðir hækkun á byggingarkostnaði hækkun á fasteignaverði?

„Þetta leiðir alla vega til þess að byggingakostnaður mun hækka. Við sjáum það hins vegar núna að íbúðaverð hefur hækkað langt umfram byggingakostnað alla vega eins og Hagstofan mælir það. Ég veit ekki hvort þetta muni hafa áhrif á fasteignaverðið einfaldlega vegna þess að fasteignaverðið er þegar orðið svo hátt,“ segir Una Jónsdóttir, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans. 

Vegna þess að íbúðaverð hefur hækkað miklu meira en byggingakostnaður sé ekki endilega þörf á því að fleyta hærri byggingakostnaði út í íbúðaverð. 

„Og svo sérstaklega gæti það orðið áhyggjuefni ef það verða einhverjar tafir á afhendingu á vörum, að það verði hreinlega ekki byggingarefni fáanlegt. Þá gæti það eitthvað aðeins dregið úr uppbyggingu og lengt þann tíma sem það tekur að byggja íbúðir,“ segir Una.

Stýrivextir voru hækkaðir um heilt prósentustig fyrr í mánuðinum og hafa hækkað um þrjú prósentustig á síðustu mánuðum. Una telur að það verði til þess að draga úr eftirspurn eftir húsnæði.

„Fasteignamarkaðurinn er í rauninni sífellt búinn að vera að koma okkur á óvart með endalausum hækkunum. En það kemur að einhvers konar þolmörkum og við teljum að það séu líkur á að það sé komið að því. Við erum hins vegar að spá því að íbúðaverð muni halda áfram að hækka en ekki með sama hraða,“ segir Una.