Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Á fimmta hundrað Færeyingar styrktir af Rauða krossinum

Mynd með færslu
 Mynd: KVF
Yfir helmingur þeirra sem þáðu aðstoð Rauða krossins í Færeyjum á síðasta ári voru börn. Þetta kemur fram í ársskýrslu samtakanna fyrir árið 2021. Sífellt fleiri færast nær fátækramörkum.

Rauði krossinn í Færeyjum styrkti 412 manns á síðasta ári og þar af eru 282 börn. Þetta kemur fram í frétt Kringvarpsins. Í skýrslu samtakanna segir að helst hafi barnafjölskyldur fengið stuðning, þar sem foreldrar eru einstæðir, atvinnulausir eða í námi.

Eins hafi fólk sem glímir við langvarandi veikindi fengið aðstoð og líka fólk sem hefur lágar tekjur. Jólahjálp Rauða krossins lagði fjármuni til 264 barnafjölskyldna í samvinnu við samtökin Barnabata. Um fimmtungur sótti um stuðning fyrsta sinni fyrir síðustu jól. 

Samtökin Barnabati voru stofnuð 1980 og starfa á grundvelli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Samtökin greindu frá því undir lok síðasta árs að æ fleiri fjölskyldur nálguðust fátæktarmörk vegna síhækkandi húsnæðiskostnaðar.

Langflest þeirra sem sóttu um styrk þurftu að greiða stærstan hluta tekna sinna í húsaleigu, að sögn Djóna Eidesgaard, formanns Barnabata. Mörg hefðu nánast ekkert milli handanna eftir að leigan hefði verið greidd.

Sum eigi jafnvel í basli með að borga leiguna. Rauði krossinn færði börnum sem lágu á sjúkrahúsi bækur. Einnig fékk kvennathvarf bókagjöf ásamt heimili fyrir munaðarlaus börn í Þórshöfn. Rauði krossinn í Færeyjum hóf að gefa föt árið 2013 og matvælaaðstoð samtakanna byrjaði fyrir tveimur árum.