Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Segir varasamt að kalla mann og annan „narsissista"

Mynd: RÚV / RÚV

Segir varasamt að kalla mann og annan „narsissista"

29.05.2022 - 12:00

Höfundar

Narsissismi er alvarleg persónuleikaröskun sem getur haft miklar og neikvæðar afleiðingar fyrir þá sem standa nærri þeim sem glíma við röskunina. Það getur því verið varasamt að nota það hugtak yfir einhvern sem sýnir einkenni narsissisma, án þess þó að tikka í öll böx þeirrar skilgreiningar sem yfir hugtakið er notuð.

Narissismi er orð sem skýtur víða upp kollinum þessi misserin. Jafnan er þessu hugtaki velt fram í umræðu um kynferðisofbeldi og gerendur þess, en mögulega er þó verið að nota þetta orð ógætilega. 

Það segir Dr. Sigríður Björk Þormar að sé raunin. Sigríður er hjúkrunarfræðingur með doktosrgráðu í læknavísindum og sérhæfingu í sálfræði áfalla. 

„Narsissismi einkennist kannski aðallega af svona upphafinni sjálfsmynd. Að fólk trúi því um sjálft sig að það sé stundum kannski svolítið æðra öðrum, að það eigi meiri rétt á hlutum en aðrir, að fólk líti gjarnan upp til þeirra," segir hún í Kastljósi og tæpir þannig aðeins á nokkru af því fjölmarga sem getur einkennt narsissista.

„Narsissísk hegðun gengur líka mjög mikið út á að gaslýsa. Það er svona þetta hugtak sem við notum um að einhver sannfærir aðra um að raunveruleiki þeirra sé ekki alveg eins og þau eru að upplifa hann, þar sem narsissistinn kemur í raun og veru öllu yfir á þig og tekur ekki ábyrgð á neinu."

Alvarleg hegðun

Sigríður Björk segir þó rétt að hafa varann á. Ekki sé rétt að kalla mann og annan narsissista, þar sem slík persónuleikaröskun sé mjög alvarleg. Hætta er á að hugtakið narsissismi verði smættað og gjaldfellt í umræðunni ef það er ekki notað í réttu samhengi og við réttar aðstæður. 

„Þegar einhver segir: „Ég held að maki minn eða systir mín eða frænka mín sé narsissisti", þá væri gott að við myndum sperra eyrun og taka það svolítið alvarlega af því það er stórt að ásaka einhvern um það," segir Sigríður og bætir við:

„Þegar við sannarlega upplifum að viðkomandi uppfylli eitthvað af þessum viðmiðum sem falla undir narsissíska persónuleikaröskun, að við notum þá frekar orð eins og: „Hann er ofboðslega erfiður í samskiptum" eða „Ég er ekki sammála því hvernig hann hagar sér" af því annars erum við svolítið að gjaldfella mjög alvarlega hegðun ef við erum farin að kalla mann og annan narsissista."

Sjá má viðtal Kastljóss við Dr. Sigríði í spilaranum hér að ofan.