Mynd: SEAN GALLUP / POOL - EPA

Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.
Lavrov segir af og frá að Pútín sé veikur
29.05.2022 - 23:20
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, segir að allar vangaveltur um veikindi forsetans, Vladímírs Pútíns, séu úr lausu lofti gripnar. Orðrómur hefur verið á kreiki um nokkra hríð um að Pútín sé heilsuveill.
Eitt og annað hefur verið talið hrjá forsetann, sem hefur ekki oft sést opinberlega frá því hann fyrirskipaði innrás í Úkraínu 24. febrúar. Pútín verður sjötugur í október.
Lavrov sagði í viðtali á frönsku sjónvarpsstöðinni TF1 Agence France-Presse, að engum með fullu viti gæti dottið í hug að staðhæfa að Pútín væri veikur eða haldinn nokkrum krankleika.
Utanríkisráðherrann sagði að Pútín kæmi opinberlega fram á hverjum degi, allir gætu fylgst með honum á sjónvarpsskjánum og lesið hverja einustu ræðu hans.
Lavrov sagði loks að hver sá sem dreifði orðrómi um veikindi forsetans yrði að eiga það við eigin samvisku. Einkalíf Pútíns og heilsa eru almennt lítið rædd opinberlega í Rússlandi enda hvílir hálfgerð bannhelgi yfir því umræðuefni.