Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Ákvæði um birtuskilyrði hornreka í regluverki bygginga

Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Allt er opið fyrir hræðileg skilyrði birtu og skugga á nýbyggingasvæðum, segir sérfræðingur í lýsingu, því að hvorki sé kveðið á um slíkt í skipulagi eða byggingareglugerð. Hann hefur áhyggjur af hæð húsa og þéttri byggð. Sjálfstæðismenn gagnrýndu skuggavarp þegar deiliskipulag Heklureits í Reykjavík var samþykkt í liðinni viku.

Reisa á allt að 463 íbúðir á Heklureitnum það er Laugavegi 168 til 174 og þar verður gert ráð fyrir verslun og þjónustustarfsemi á 1. hæð. Samtals verða þetta 46 þúsund fermetrar rúmir. Húsin verða hæst sjö hæðir við Laugaveg en allt niður í tvær hæðir við Brautarholt. Þröngar götur eru milli sumra háhýsanna.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins bókuðu á fundi skipulags- og samgönguráðs á miðvikudaginn þegar deiliskipulagið var samþykkt að ljóst væri að verulegt skuggavarp yrði í inngörðum og að birtan myndi ekki uppfylla skilyrði nýsamþykkts aðalskipulags borgarinnar. 

„Ég er alveg með áhyggjur af byggingamagninu. Og við erum að sjá að það er að þéttast og hækka. Þannig að þetta er eitthvað sem við þurfum að taka alvarlega og við þurfum að finna okkur aðferðir til þess að passa upp á gæðin í umhverfinu okkar,“ segir Ásta Logadóttir verkfræðingur hjá Lotu. Doktorsverkefni hennar fjallaði um lýsingu og hefur hún veitt ráðgjöf í þeim efnum. 

Ásta á þarna almennt við svæði þar sem verið er að byggja. Reykjavíkurborg er, segir hún, að útbúa leiðbeiningar þar sem kveðið er á um sólskinsstundir og skuggavörp á tilteknum dvalarsvæðum úti við og þá líka hvernig skuggar fara upp á veggi húsa. 

„Skipulagið þarf að passa upp að aðkomu dagsljóssins að byggingunum. En svo þarf byggingareglugerðin okkar að passa upp á að ljósið komist inn í byggingarnar þar sem það er komið að byggingunni. Og byggingareglugerðin okkar passar ekki upp á það eins og er. Þannig að, eins og er, er í rauninni allt opið fyrir að gera hræðileg skilyrði hérna á landinu okkar.“

Áttu þá við að það er hægt að gera svona dimmar íbúðir?

„Það er hægt, já.“

Margir í byggingabransanum hafa kvartað sáran yfir þungu regluverki og að það dragi úr þeim hraða sem þarf til að reisa ný hús. Ekki blasir því alveg við að lífsgæði eins og birta rati inn í skipulags- og byggingarreglur fljótlega. 

Kaupendur þurfa því að hafa augun hjá sér þegar þeir skoða íbúðir og athuga til dæmis hvað dagsbirta nær langt inn og til dæmis í djúpum íbúðum að skoða hvort mikið ójafnvægi er milli bjartra og dimmra hluta íbúðarinnar. Ástu vill hafa svalir og dvalarsvæði í suður en segir norðurglugga þægilegasta því í þeim þurfi ekki að stjórna sólskininu. 

„Maður þarf líka að passa rosalega vel upp er að skoða svalir af því að svalir fyrir ofan glugga þær stela gífurlega miklu ljósi. Þannig að nágranni þinn er heppinn ef þú ert á fyrstu hæð og nágranninn fyrir ofan er með djúpar svalir þá er hann bara heppinn en þú óheppin.“