Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Úrvalsdeildarliðin komu sér í 8-liða úrslit

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Úrvalsdeildarliðin komu sér í 8-liða úrslit

28.05.2022 - 16:10
16-liða úrslit Mjólkurbikars kvenna í fótbolta héldu áfram í dag. KR, Stjarnan, Þór/KA og Selfoss eru öll komin í 8-liða úrslit.

 

Það var úrvalsdeildarslagur á Selfossi þar sem heimakonur tóku á móti Aftureldingu. Liðin mættust í fyrstu umferð Bestu deildarinnar og þar unnu Selfyssingar afar öruggan 4-1 sigur. Afturelding var hins vegar fyrri til að skora á Selfossi í dag. Markið skoraði Hildur Karítas Gunnarsdóttir á 36. mínútu og Mosfellingar voru marki yfir í hálfleik. Á 58. mínútu kom jöfnunarmark heimakvenna. Það skoraði Miranda Nild og staðan á Selfossi orðin 1-1. Aðeins fjórum mínútum síðar endaði sókn Selfyssinga með því að Brenna Lovera kom boltanum í mark Aftureldingar og Selfoss nú komið í forystuna, 2-1. Embla Dís Gunnarsdóttir tryggði Selfossi svo 3-1 sigur á lokamínútu leiksins, Selfyssingar komnir áfram en Afturelding úr leik.

Á Akranesi mættust 1. deildarlið ÍA og úrvalsdeildarlið KR. Á 13. mínútu vann Bergdís Fanney Einarsdóttir boltann, hún fann Rasamee Phonsongkham í teignum og Rasamee átti laglegt skot sem endaði í marki Skagakvenna, 1-0 fyrir KR. Bergdís og Rasamee áttu eftir að vinna vel saman í fyrri hálfleiknum og á 20. mínútu tók Rasamee aukaspyrnu, boltinn rataði til Bergdísar sem skallaði hann í markið og staðan orðin 2-0. Á 36. mínútu tók Rasamee hornspyrnu og aftur fann boltinn kollinn á Bergdísi sem breytti stöðunni í 3-0 og það voru hálfleikstölur. Ísabella Sara Tryggvadóttir skoraði tvö mörk fyrir KR á 10 mínútna kafla og breytti stöðunni í 5-0 áður en Laufey Björnsdóttir tryggði gestunum 6-0 sigur á lokamínútu leiksins. KR er þar með komið áfram í ÍA er úr leik.

Í Kaplakrika tók FH á móti Stjörnunni, FH-ingar leika í 1. deildinni en Stjarnan í deild þeirra bestu. Aðeins eitt mark var skorað í leiknum og það kom sjö mínútum fyrir leikslok. Aukaspyrna Stjörnukvenna endaði með fyrirgjöf inn á teiginn, Jasmín Erla Ingadóttir fann loks Örnu Dís Arnþórsdóttur sem skoraði laglegt mark og hún skaut þar með Garðbæingum í 8-liða úrslitin.

Þór/KA bauð upp á markaveislu gegn 1. deildarliði Hauka á Akureyri í dag. Tiffany McCarty opnaði markareikninginn á 10. mínútu þegar hún slapp ein í gegn og eftirleikurinn auðveldur. Átta mínútum síðar bætti Andrea Mist Pálsdóttir við öðru marki norðankvenna eftir hornspyrnu og Margrét Árnadóttir skoraði svo þriðja markið á 41. mínútu eftir mikið klafs í vítateig Hauka. 3-0 var staðan í hálfleik en mörkin héldu áfram að koma í síðari hálfleiknum. Sandra María Jessen skoraði fjórða markið á 49. mínútu og Hulda Ósk Jónsdóttir það fimmta fimm mínútum síðar. Sjálfsmark á 66. mínútu gerði endanlega út um leikinn, 6-0 lokatölur á Akureyri og Þór/KA komið í 8-liða úrslit.