Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Úkraínska rétttrúnaðarkirkjan slítur tengsl við Moskvu

Mynd með færslu
Rússneski patríarkinn Kírill og Bartólómeus, patríarki í Konstantínópel, meðan allt lék í lyndi. Mynd:
Æðsta ráð úkraínsku rétttrúnaðarkirkjunnar í Moskvu hefur ákveðið að slíta öll tengsl við kirkjuna í Rússlandi. Leiðtogar kirkjunnar lýstu í gær í sögulegri yfirlýsingu algeru sjálfstæði. Ástæðan er innrás Rússa í Úkraínu.

Í yfirlýsingunni kemur fram alger andstaða við afstöðu Kirils patríarka til innrásarinnar. Hann er æðsti leiðtogi rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar og hefur stutt Vladimír Pútín Rússlandsforseta með ráðum og dáð.

Kirill hefur kröftuglega varið ákvörðun hans um að ráðast inn í Úkraínu. Innrásin, og stuðningur Kirils við hana, hefur sett úkraínsku kirkjuna í flókna stöðu. Fram að þessu hefur Moskvudeild hennar formlega lýst hollustu við Kiril en í dag kvað við annan tón. 

Æðsta ráðið fordæmir innrásina, segir hana brot á sjötta boðorðinu þar sem segir „þú skalt ekki morð fremja“ og lýsir samúð með öllum sem þjást vegna stríðsins.

Ráðið segir samskipti við Moskvukirkjuna hafa verið lítil undanfarið og stirð það litla sem þau voru. Ráðið biðlar jafnframt til stjórnvalda í Úkraínu og Moskvu að halda áfram samningaviðræðum og stöðva blóðbaðið í Úkraínu. 

Úkraínska rétttrúnaðarkirkjan hefur lotið andlegri stjórn kirkjunnar í Moskvu um aldir.

Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem slær í brýnu en árið 2019 sleit hluti kirkjunnar sig frá ráðum þeirrar rússnesku vegna stuðnings hennar við aðskilnaðarsinna í Donbas eftir innlimun Krímskaga.

Ekki liggur fyrir hvort þeir sem nú kvöddu kirkjuna í Rússlandi fylgi þeim sem yfirgáfuna hana 2019 til hollustu við Bartólómeus patríarka í Istanbúl. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV