Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Hafna að veita ríkisábyrgð vegna mannréttindabrota

epa09979084 German Minister for Economic Affairs and Climate Protection Robert Habeck looks on during a press conference after signing a Memorandum of Understanding on the establishment of a German-American Climate and Energy Partnership, during the G7 Climate and Energy Ministerial meeting on the situation in Ukraine at the EUREF campus in Berlin, Germany, 27 May 2022.  EPA-EFE/FILIP SINGER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Þýska ríkisstjórnin hefur neitað að veita fyrirtæki ríkisábyrgð fyrir fjárfestingum í Kína í ljósi mannréttindabrota gegn múslímskum minnihlutahópum í Xinjiang-héraði. Robert Habeck efnahagsráðherra Þýskalands segir þetta vera í fyrsta sinn sem ábyrgð er hafnað vegna mannréttindabrota.

Ráðherrann nefndi ekki fyrirtækið sem hafnað var en þýska blaðið Der Spiegel staðhæfir að það sé bílarisinn Volkswagen. Þótt fjárfestingarnar tengist Xinjiang ekki beinlínis hefur Spiegel eftir ónefndum heimildarmanni að ekki sé hægt að útiloka tengsl þangað.

Fyrirtækið hefur frá árinu 2013 rekið verksmiðju í Urumqi, höfuðborg héraðsins, í samvinnu við kínverska bílaframleiðandann SAIC. Herbert Diess, forstjóri Volkswagen sagði í apríl af og frá að fólk væri þvingað til starfa í verksmiðjum fyrirtækisins á svæðinu. Hann sagðist hins vegar áfjáður í að halda þeim opnum áfram. 

Kínversk stjórnvöld hafa legið undir þungu ámæli fyrir skipulegt harðræði gegn múslímska minnihlutanum í héraðinu, sem stjórnvöld víða um heim segja jafngilda þjóðarmorði.

Kínverjar halda yfir milljón úígúrum og öðrum múslímum í fangabúðum, þeir hafa beitt þvinguðum ófrjósemisaðgerðum og getnaðarvörnum auk þess sem fjöldi fólks er þvingaður til vinnu.

Habeck sagði í samtali við Welt am Sonntag að þessar væru ástæður þess að ríkisábyrgð var hafnað. Hann segir hinsvegar að til framtíðar verði hver umsókn metin fyrir sig. 

Michelle Bachelet, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, er á ferð um Xinjiang og hefur legið undir þungu ámæli úígúra í öðrum löndum.

Hún er sögð hafa verið dregin inn í vel skipulagða skoðunarferð stjórnvalda, meðal annars á fund með Xi Jinping forseta. Kínverskir ríkismiðlar hafi látið í það skína að fundur þeirra hafi staðfest gagnkvæmt samþykki um að kínversk stjörnvöld hefðu mannréttindi í hávegum.