Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Eldur í verslun í Skútuvogi

Mynd með færslu
 Mynd: Kristján Þór Ingvarsson - RÚV
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins er að ljúka störfum í Skútuvogi þar sem eldur kviknaði í verslun í kvöld. Menn og bílar frá öllum stöðvum voru sendir á vettvang, að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu. Eldurinn kviknaði í húsnæði verslunarinnar Tunglskin og rafskútuleigunnar OSS og logaði glatt þegar að var komið, að sögn varðstjórans.

Tilkynning barst um eldsvoðann klukkan 23.10 og voru þá um 20 manns frá öllum stöðvum sendir á vettvang. Rúmum 20 mínútum síðar var búið að slá það mikið á eldinn að óhætt þótti að senda reykkafara inn í bygginguna.

Laust fyrir miðnætti fengust svo þær upplýsingar hjá varðstjóranum að slökkviliðsmenn á vettvangi væru að ljúka störfum og farnir að ganga frá búnaði sínum eftir vel heppnað slökkvistarf. 

Engan sakaði og ekki er vitað um eldsupptök. Rannsókn á þeim hefur verið falin í hendur lögreglu. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV