Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Tapar tugum þúsunda á hverjum nautgrip sem hann elur

27.05.2022 - 13:21
Mynd: Sölvi Andrason / RÚV
Nautgripabóndi í Eyjafjarðarsveit segir að hækka þurfi afurðaverð á nautakjöti um tugi prósenta eigi greinin að lifa af. Hann íhugar nú alvarlega að hætta framleiðslu verði engar breytingar gerðar.

Gríðarlegar hækkanir á aðföngum

Í Grænuhlíð í Eyjafjarðarsveit hafa þrjár kynslóðir bænda rekið myndarlegt kúa- og nautgripabú í áratugi. Þar eru 65 mjólkandi kýr og stór nautgriparækt sem nú stendur á tímamótum. Bóndinn á bænum segir hækkandi aðföng gera það að verkum að tap er nú á hverri skepnu. Þórólfur Ómar Óskarsson, bóndi í Grænuhlíð segir útlitið svart. „Þetta eru bara þannig hækkanir að við höfum aldrei séð svona hækkanir áður. Við erum að tala um hátt í 100% hækkun á áburði milli ára. Nú eru vaxtahækkanir og það er hækkun á olíu og hækkun á kjarnfóðri og þetta er bara of mikið,“ segir Þórólfur. 

„Við verðum bara að fá betra verð“

Hann segir verð til bænda ekki fylgja með og þeir sitji því eftir með sárt ennið. „Við verðum bara að fá betra verð fyrir okkar vöru, því annars erum við bara með verslunareigendur í mat alla daga. Ég tek bara ekki þátt í því neitt lengur, ég ætla bara að hætta ef að ekkert gerist.“

Pólitísk ákvörðun

Þórólfur segir ljóst að auk tuga prósenta hækkunar á verði til bænda þurfi framleiðendur að fá beinan stuðning frá ríkinu, ætli greinin að lifa af. „Þetta er bara pólitísk ákvörðun, hvort það eigi að framleiða nautakjöt á íslandi eða ekki. Það er bara svoleiðis. Ég er ekkert hræddur við neitt, ég get alveg hætt, það væri bara fínt að fá að vita það strax.“ 

Ekkert gang í því að stækka og tapa meira

Hann segir þróunina í greininni hafa falist í því að stækka búin og ná þannig fram hagræði en í þessu tilfelli er til lítils að stækka. „Ef ég myndi stækka þá myndi ég bara tapa á fleiri gripum.“

Geturu slegið á hvað þú tapar á hverri skepnu eins og staðan er í dag?

„Ég er ekki tilbúinn að segja einhverja tölu en þetta er ekki hægt sko.“

En þetta eru tugir þúsunda?

„Já já.“